Viðskipti innlent

Mikill áhugi á ævintýraheimi Tulipop frá leikfanga- og afþreyingariðnaði

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Vinkonurnar Signý Kolbeinsdóttir og Helga Árnadóttir standa að fyrirtækinu Tulipop sem hefur vaxið hratt. Með auknum vexti fyrirtækisins og umsvifum utan Íslands hafa sífellt fleiri tækifæri komið á borð fyrirtækisins á öðrum sviðum en vöruframleiðslu.
Vinkonurnar Signý Kolbeinsdóttir og Helga Árnadóttir standa að fyrirtækinu Tulipop sem hefur vaxið hratt. Með auknum vexti fyrirtækisins og umsvifum utan Íslands hafa sífellt fleiri tækifæri komið á borð fyrirtækisins á öðrum sviðum en vöruframleiðslu. Fréttablaðið/Stefán
Fyrirtækið Tulipop var stofnað árið 2010 af vinkonunum Helgu Árnadóttur, tölvunarfræðingi og MBA, og Signýju Kolbeinsdóttur, vöruhönnuði og teiknara. Markmið Tulipop-ævintýraheimsins var og er að búa til skapandi og fallegar vörur fyrir börn sem höfða til fólks á öllum aldri.

Markmiðið er enn hið sama en með auknum vexti fyrirtækisins og umsvifum utan Íslands hafa sífellt fleiri tækifæri komið á borð fyrirtækisins á öðrum sviðum en vöruframleiðslu, sem hafa meðal annars leitt til þess að Tulipop gaf út leik fyrir snjalltæki fyrr á árinu í samstarfi við breskan leikjaframleiðanda. Auk þess finna þær stöllur fyrir vaxandi áhuga fyrirtækja í leikfanga- og afþreyingargeiranum.

Signý: „Okkur finnst gífurlega spennandi að stíga frekari skref í átt að því að færa Tulipop-ævintýraheiminn og persónurnar til lífsins, og var leikurinn sem við gerðum liður í því. “

Helga: „Við erum búnar að reka þetta fyrirtæki í fimm ár. Signý skapaði ævintýraheiminn þar sem hver persóna hefur sína sögu. Það hefur mikil vinna farið í sköpunina og alveg frá því við byrjuðum að kynna Tulipop erlendis höfum við verið spurðar að því hvort við ætluðum ekki að gefa út Tulipop-bækur, fara í sjónvarp og svo framvegis. Það er því gaman að finna fyrir vaxandi áhuga alls konar aðila í afþreyingargeiranum á Tulipop-heiminum sem vilja færa hann til lífs, svo sem í gegnum tölvuleiki eða sjónvarp eða annað. Við erum byrjaðar að vinna í einhverjum slíkum verkefnum, sem eru þó á algjöru byrjunarstigi enda geta slík verkefni tekið langan tíma.“

Tulipop bakpokar koma út í haust.
Einbeita sér að einum markaði

Tulipop hefur átt mikilli velgengni að fagna og selt vörur til yfir tíu landa. Fyrir einu og hálfu ári síðan tóku þær hins vegar þá ákvörðun að einbeita sér aðeins að markaðnum hérlendis og í Bretlandi.




Helga: „Við fórum í smá naflaskoðun á þessum tíma þegar við ákváðum að það væri kominn tími til að fá fjárfesta inn í félagið. Við fórum yfir hvað var að virka og hvað ekki. Við höfðum verið að fara á mjög stórar vörusýningar og fá í kjölfarið pantanir frá mörgum löndum, kannski átta og komumst að því að oft var mjög erfitt að fylgja því almennilega eftir. Við fengum kannski pantanir frá nokkrum búðum í Hollandi, Þýskalandi og Frakklandi og sendum vörur þangað. Síðan hafði maður engin tök á því að heimsækja búðirnar, hringja í þær eftir þörfum eða hafa samband við þarlenda fjölmiðla. Þannig að við ákváðum, af mörgum mismunandi ástæðum, að velja Bretland.“



En hefði komið til greina að stækka fyrirtækið hraðar til að mæta þessari auknu eftirspurn?



Helga: „Já. Hin leiðin hefði verið að fara á þessum tíma í risastóra hlutafjáraukningu, selja nær allt fyrirtækið og stækka miklu hraðar. En okkur liggur bara ekkert svo mikið á. Við erum ekki með þannig vöru, eins og tæknivörur, þar sem skiptir öllu að vera fyrstur. Þannig að okkur fannst skipta meira máli að þróa þetta hægar.“



Signý: „Við vildum líka eiga meira í fyrirtækinu. Á þessum tímapunkti hefðum við ekki selt fyrirtækið mjög dýrt, það var ekkert hlutafé inni í því og vörurnar voru enn þá takmarkaðar.“



Í lok ársins 2013 fékk Tulipop fjárfesta til liðs við sig. Signý leiddi í kjölfarið þróun á breikkun vörulínu fyrirtækisins sem hefur stækkað mikið.



Signý: „Þetta er heimurinn minn. Það skipti mig þess vegna máli að hann væri útfærður á fallegan máta en ekki í einhverri flýtimeðferð.“



Helga: „En þetta er alltaf spurning, hversu hratt maður á að stækka. Okkur fannst ekki liggja neitt á, það væri betra að taka minna skref og síðan þegar að því kæmi að fjármagna teiknimyndaseríu eða leikföng eða eitthvað annað þá þyrftum við kannski að stækka hraðar. Ef við síðan náum árangri í Bretlandi þá verður auðveldara að ná árangri annars staðar. Næsta skref verður hagkvæmara. Ná árangri á einum markaði og byggja svo á því annars staðar í stað þess að fara í sama átakið á mörgum mörkuðum í einu.“



Þær segja báðar að það sé mikil áskorun að skerpa fókusinn og kunna að segja nei.



Helga: „Á þessum fimm árum höfum við fengið alls konar spennandi fyrirspurnir, til dæmis frá Japan eða Suður-Ameríku, frá einhverjum sem hafa áhuga á Tulipop. En til að slíkt geti yfirleitt farið af stað þarf svo mörg skref. Það þarf að þýða upplýsingar yfir á annað tungumál, afla sér upplýsinga um innflutning í landið og svo framvegis. Þetta er fljótt að vinda upp á sig og síðan veit maður ekkert hvað verður úr því. Þannig að til að halda fókus og sinna þeim stöðum sem við erum á þá þarf að kunna að segja nei.“



Heimamarkaðurinn skiptir máli

Fyrirtækið sprengdi af sér húsnæði sem það var í á Hverfisgötu og hefur komið sér þægilega fyrir á góðum stað á Fiskislóð með útsýni yfir hafið. En er það hindrun að vera á litla markaðnum Íslandi?




Signý: „Nei, það hefur ekki reynst neitt voðalega erfitt. Stundum er fjarlægðin erfið, að vera á þessari eyju. En þess vegna erum við að herja á Bretland, þangað er stutt að fara, flogið oft í viku og þægilegur tímamismunur.



Helga: „Ég hefði ekki trúað því fyrr en á reyndi hvað tímamismunurinn skiptir miklu máli. Framleiðendurnir okkar eru í Asíu og maður þyrfti helst að hringja í þá heiman frá, áður en maður mætir til vinnu á morgnana til að ná þeim á skrifstofutíma.



Signý: „Þó að markaðurinn hérna heima sé lítill þá skiptir hann líka máli. Grunnurinn að öllu öðru er að það gangi vel hérna.




Helga: „Já, það kemur oft fram á sýningunum að þetta sé íslenskt merki. Þá er spurt hvernig okkur gangi á Íslandi. Þá er gaman að segja frá hversu vel þetta hefur gengið hér. Við höfum fengið frábær viðbrögð og margir þekkja vörumerkið. Svo eru vörurnar til sölu í svo flottum verslunum. Þetta skiptir allt miklu máli og ég held að maður hafi kannski vanmetið það örlítið í upphafi hvað góður árangur á þessum litla heimamarkaði, að hafa trausta fótfestu þar, getur skipt miklu máli.“


Í Tulipop búa krúttlegar og heillandi persónur eins og sveppastrákurinn hugljúfi Bubble, sem ann öllu sem hrærist, og systir hans Gloomy, hugrakka og ævintýragjarna sveppastelpan sem hræðist ekkert.
Mikilvægt að hitta fólk

Á síðasta ári seldi Tulipop vörur sínar í hátt í tuttugu verslunum í Bretlandi. Þær stöllur hafa fengið mikið af fjölmiðlaumfjöllun þar í landi og í lok síðasta árs fengu þær viðurkenningar frá Junior Awards, fremstu hönnunarverðlaunum á sviði barnavara. Þá hafa þær ráðið sér sölufulltrúa í London sem sér um að sinna viðskiptavinum þeirra þar, sýna vörur og taka við pöntunum.

Helga: „Þetta gengur vel. Það eru alltaf fleiri og fleiri búðir farnar að hafa samband að fyrra bragði við okkur og maður veit ekki alltaf alveg af hverju það stafar. Sérstaklega í lok síðasta árs.“

Signý: „Það er alltaf miklu skemmtilegra þannig heldur en að við séum að hafa samband með vörurnar okkar. Til dæmis seldum við til eistneskrar keðju fullt af vörum, þá hafði kona þaðan komið á vörusýningu þar sem við sýndum. Stundum dettur bara eitthvað inn þótt maður sé ekkert að reyna.“

Þær segja vörusýningarnar skila miklu, þar myndi þær tengsl og fá tækifæri til að sýna vörulínurnar í sínu rétta umhverfi.

Helga: „Fyrst vorum við ekki vissar hverju þetta myndi skila. Veltum því fyrir okkur hvort þetta væri kannski svolítið „gamla leiðin“ sem virkaði best fyrir tíma internetsins. En þær eru mjög mikilvægar. Flestir innkaupastjórar verslana fara á svona sýningar að skoða. Þótt þeir panti kannski ekki endilega á sýningunni sjálfri þá myndast þar tengsl sem eru dýrmæt.“

Signý: „Það skiptir líka máli að hitta fólk af holdi og blóði. Það gildir greinilega enn þá að það er dýrmætt að hitta manneskjur augliti til auglitis og taka í hendurnar á þeim í stað þess að vera bara í rafrænum samskiptum.“



Vilja vera alls staðar

En hver er draumastaðan hjá Tulipop?




Signý: „Markmiðið hjá okkur í upphafi var að framleiða vörur sem allir væru ánægðir með; mömmur og pabbar og börnin. Að það séu allir glaðir þegar heim er komið með vöruna. Foreldrarnir eru glaðir af því að vörurnar eru smekklegar og þeir eru til í að hafa þær heima hjá sér. Börnin eru líka glöð. Það hefur sýnt sig á vörusýningunum að þau sogast að þessu, sem er gott.“




Helga: „Svo hafa fullorðnir líka verið að kaupa vörurnar okkar. Við höfum heyrt af fólki sem hefur sett matarstellin okkar á brúðkaupsgjafalistana sína. Það er skemmtilegt.“




Signý: „En draumastaðan er sífellt að breytast. Fyrir rúmu ári síðan var það bara að geta lifað af þessu á sæmilegum launum. Nú hefur það ræst og þá verður draumurinn annar og maður gleymir hinu. Svo breytist þetta enn aftur þegar sá rætist.




Helga: „Draumastaðan í upphafi var bara að búa til vörur utan um karaktera sem gætu náð árangri á heimsvísu.“




Signý: „Ætli draumurinn sé ekki að vera á endanum komnar með teiknimyndir, bíómyndir, leikföng, tölvuleiki og vera bara alls staðar.“







Fleiri fréttir

Sjá meira


×