Viðskipti innlent

Samherji fær að eiga meirihluta í Slippnum

Haraldur Guðmundsson skrifar
Samherji er nú meirihlutaeigandi í stærsta skipasmíðafyrirtæki landsins.
Samherji er nú meirihlutaeigandi í stærsta skipasmíðafyrirtæki landsins. Vísir/Auðunn
Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt kaup Samherja á 80 prósenta hlut í fjárfestingarfélaginu ESTIA hf. Samherji er eftir kaupin meirihlutaeigandi í Slippnum Akureyri hf.

Samþykkið er veitt með skilyrðum um að sjávarútvegsfyrirtækið fái ekki forgang að þjónustu skipasmíða- og málmvinnslufyrirtækisins.

„Telur Samkeppniseftirlitið að skilyrðin leysi hin samkeppnislegu vandkvæði sem af samrunanum kunna að stafa,“ segir í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.

Greint var frá kaupum Samherja á 80 prósenta hlut í ESTIA í Markaðinum í október síðastliðnum. Kaupverðið er trúnaðarmál en ESTIA á 71 prósents hlut í Slippnum sem rekur skipasmíðastöð, dráttarbraut og flotkví á Akureyri.

Eiríkur S. Jóhannsson, stjórnarformaður Samherja, segir stjórnendur fyrirtækisins ekki hafa nein áform um breytingar á rekstri Slippsins.

„Það eru engar byltingar í vændum og fyrirtækið mun halda áfram í óbreyttum rekstri,“ segir Eiríkur og heldur áfram:

„Það er eðlilegur fyrirvari í samþykkinu um að skip Samherja og tengdra aðila njóti ekki forgangs hjá Slippnum. Að okkar mati er það eðlilegt vegna þess að Slippurinn var ekki keyptur með það í huga að hygla Samherja heldur til að gera gott fyrirtæki enn betra.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×