Viðskipti innlent

Mikkeller vill opna bjórbar í Reykjavík

Haraldur Guðmundsson skrifar
Mikkeller opnaði bar í San Francisco í júlí 2013 og nokkrum mánuðum síðar í Bangkok í Taílandi.
Mikkeller opnaði bar í San Francisco í júlí 2013 og nokkrum mánuðum síðar í Bangkok í Taílandi. Mynd/Mikkeller
Hópur tengdur eigendum gistiheimilisins Kex Hostels á í viðræðum við forsvarsmenn bjórframleiðandans Mikkeller um opnun á bar undir nafni danska fyrirtækisins í Reykjavík.

„Við erum í reglulegum samskiptum og það eru einhverjar þreifingar en þetta er enn á viðræðustigi og engir pappírar hafa verið undirritaðir,“ segir Ólafur Ágústsson, rekstrarstjóri veitingastaðarins Sæmundar í sparifötunum á Kexi Hosteli.

„Þeim finnst Reykjavík vera spennandi markaður en það er ekki búið að negla neina ákveða staðsetningu niður. Það er allt opið,“ segir Ólafur.

Mikkeller var stofnað í Kaupmannahöfn árið 2006 og er almennt talið á meðal fremstu örbrugghúsa heims. Framleiðsluvörur fyrirtækisins hafa vakið mikla athygli en þær eru fáanlegar í yfir fjörutíu löndum. Mikkeller rekur öldurhús og veitingastað í Danmörku en einnig í Stokkhólmi, San Francisco og Bangkok á Taílandi.

Ólafur hefur séð um skipulagningu árlegrar Bjórhátíðar Kex Hostels en starfsmenn Mikkeller hafa tekið þátt í hátíðinni síðustu tvö ár og kynnt vörur fyrirtækisins.

Ólafur vill ekki fara nánar út í hverjir það eru sem hafa áhuga á samstarfi við danska bjórframleiðandann. Á meðal eigenda gistiheimilisins eru Pétur Marteinsson, fyrrverandi knattspyrnumaður og framkvæmdastjóri Kex Hostels, Eiður Smári Guðjohnsen, atvinnumaður í knattspyrnu, og Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska handboltalandsliðsins og félagsliðsins Füchse Berlin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×