Skoðun

Ég er Charlie

Elín Hirst skrifar

Afar öflug skilaboð eru nú send til umheimsins vegna hinna hroðalegu morða á ritstjórnarskrifstofu skoptímaritsins Charlie Hebdo. Skilaboðin eru einfaldlega „Ég er Charlie“ eða „Je suis Charlie“. Hundruð þúsunda manna hafa safnast saman á götum og torgum í Frakklandi og öðrum löndum og halda á skiltum með þessari áletrun.



Skilaboðin sem beint er til hryðjuverkamanna um allan heim eru hárbeitt og hitta beint í mark, en jafnframt eru þau margslungin. Í fyrsta lagi lýsa þau yfir stuðningi og samúð við fórnarlömb hryðjuverkaárásarinnar, en 12 starfsmenn á ritstjórnarskrifstofu Charlie Hebdo í París létu lífið þegar hryðjuverkamenn réðust þar til atlögu. Í öðru lagi lýsa þau yfir stuðningi við tjáningarfrelsið sem er einn helsti grundvöllur vestrænna lýðræðissamfélaga.



Fréttamenn Charlie Hebdo eru þekktir fyrir vægðarlaust háð og ósvífni og eru íslömsk öfgaöfl meðal þeirra fjölmörgu sem hafa verið skotspónn blaðsins. Þetta geta öfgasamtök eða hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við Múhameð spámann ekki sætt sig við og því eru skilaboðin „Ég er Charlie“ þau að þetta sé atlaga að tjáningarfrelsinu, og almenningur á Vesturlöndum hyggst standa dyggan vörð um þau grundvallargildi.



„Ég er Charlie“ eru einnig skilaboð um að menn hyggist ekki gefast upp gegn þeirri óþolandi ógn sem hryðjuverkasamtök eru um allan heim heldur standa þétt saman. Nú er hins vegar Vesturlandabúa að sýna að þeir hafi visku og dómgreind til að greina á milli saklauss fólks sem er íslamstrúar og öfgamanna sem fara um og dreifa blóði í nafni trúarinnar. Í fréttum í gær var rætt við íslenska konu sem einmitt óttast að kynþáttahatur aukist enn í kjölfar atburðanna, en það sem hún sagði kom beint frá hjartanu og er ofurskiljanlegt: „Ég neita því ekki að ég er fegin að vera ljóshærð kona, hér í París í dag, en ekki dökk á hörund.“



Slagorðin „Ég er Charlie“ eða „Je suis Charlie“ eru afar öflugt sameiningartákn ásamt því að vera skýr skilaboð til hryðjuverkasamtaka um heim allan, eins og áður segir, en látum þau líka vera áminningu til okkar sjálfra um hvernig við viljum koma fram við annað saklaust og heiðarlegt fólk sama hvar í heiminum það er upprunnið eða hverrar trúar það er.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×