Tíska og hönnun

Enginn er Eyland

Ása Ninna Pétursdóttir fatahönnuður segir leðrið halda áfram að vera áberandi í nýju línunni.
Ása Ninna Pétursdóttir fatahönnuður segir leðrið halda áfram að vera áberandi í nýju línunni. Vísir/Ernir
Ása Ninna Pétursdóttir sýnir á Reykjavík Fashion Festival í mars. Ása hannar undir merkinu EYLAND og fyrsta tískulína hennar er minimalísk og hrá en með „dassi“ af rokki og töffaraskap.

„Ég fæ mikinn innblástur frá sterkum, sjálfstæðum konum sem eru ekki þessar klassísku kvenlegu týpur. Þær eru sjálfsöruggar og með spennandi „tomboy“-útlit. Konur eins og Patti Smith og Charlotte Gainsbourg eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Þetta eru svona týpur sem þurfa ekki endilega að fara í kjól til að vera fínar eða kynþokkafullar og hafa húmor fyrir lífinu og sjálfum sér,“ segir Ása. Mikil áhersla er lögð á góð snið og vönduð efni, en eitt af markmiðum við þróun merkisins er að hönnunin einkennist af gæðum og góðri endingu.

Fyrsta lína EYLAND kom í búðir rétt fyrir jól og segir Ása Ninna það hafa gefið sér mikinn drifkraft og innblástur að sjá hversu góðar viðtökurnar hafa verið. Á RFF mun hún sýna haust- og vetrarlínu EYLAND fyrir 2015 og er um þessar mundir á fullu í hugmynda- og þróunarvinnu.

„Ég hlakka mjög mikið til að taka þátt og er spennt að vera hluti af þessari hátíð sem styrkist með ári hverju. Spái miklu stuði og miklum krafti í ár,“ segir hún. Hún vill ekki gefa of mikið upp um hvers má vænta í nýju línunni. „Leðrið verður áfram áberandi og verður línan mun stærri og breiðari. Hitt mun svo koma á óvart,“ segir hún.

RFF





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.