Menning

Flytja tónleikadagskrá sem var frestað

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Á ýmsu gekk við undirbúning og áformaðan flutning dagskrárinnar en nú getur ekkert klikkað hjá Evu Þyri, Hlín og Pamelu.
Á ýmsu gekk við undirbúning og áformaðan flutning dagskrárinnar en nú getur ekkert klikkað hjá Evu Þyri, Hlín og Pamelu.
Hlín Pétursdóttir Behrens sópransöngkona, Pamela de Sensi þverflautuleikari og Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari eru með dagskrá í Norræna húsinu á morgun klukkan 15.15 sem er að meginhluta helguð franskri tónlist.



Tónleikarnir áttu að fara fram 30. nóvember en var frestað vegna veðurs eins og flestum viðburðum þann dag. Það kom þeim stöllum ekki á óvart, miðað við hvernig æfingaferlið gekk. Hlín rekur það:

„Við fórum tímanlega af stað, enda um vandaða dagskrá að ræða en píanistinn sem við unnum með þá varð veikur svo við frestuðum æfingum tvisvar. Svo varð ég veik. Byrjuðum þó loks að æfa og gekk svona ljómandi vel.

Einn daginn dettur píanistinn og tognar á úlnlið. Þá kom Eva Þyri inn og við byrjum að æfa. Þær Pamela taka upp á því að fara í námsferð til Ítalíu í fimm daga. Allt í lagi. Þær koma heim, við byrjum að æfa en Eva Þyri þarf þá endilega að skera sig í þumalputtann. Við Pamela æfum, svo með einhentum píanista, gengur ljómandi vel. Þá fer ég í tónleikaferð til Þýskalands.

En það styttist í tónleika, við komnar í ham, þá er spáð stormi og óveðri. Við skiljum fyrr en skellur í tönnum. Auðvitað þarf að fresta. En það þarf varla að taka fram að við hlökkum mikið til morgundagsins!“

Hlín segir ævintýraheim Þúsund og einnar nætur koma við sögu á tónleikunum, einnig forna ástarsöngva frá Persíu og ástarljóð sem eru nær okkur í tíma. Pamela muni bæði leika á þverflautu af þeirri stærð sem við þekkjum best og líka á altflautu og pikkólóflautu.

Bætir því við að flautan sé auk mannsraddarinnar eitt elsta hljóðfæri mannkyns.

Tónleikarnir á morgun tilheyra að sjálfsögðu röðinni 15.15!








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.