Menning

Úrslitaleikurinn á HM opnaði fyrir hugmyndina

Magnús Guðmundsson skrifar
Ég er að skrifa um leitina að ljósinu segir Auður Ava Ólafsdóttir, höfundur Ekki hætta að anda sem verður frumsýnt í kvöld.
Ég er að skrifa um leitina að ljósinu segir Auður Ava Ólafsdóttir, höfundur Ekki hætta að anda sem verður frumsýnt í kvöld. Vísir/Ernir
Leikhópurinn Háaloftið samanstendur af fjórum leikkonum, þeim Elmu Lísu Gunnarsdóttur, Kötlu Margréti Þorgeirsdóttur, Maríu Hebu Þorkelsdóttur og Tinnu Hrafnsdóttur, og það reyndist Auði Övu talsverð áskorun að skrifa verk utan um fjórar konur.

Bakgrunnur Auðar Övu sem höfundar er um margt óvenjulegur en listdansinn var sú listgrein sem hún kynntist fyrst sem barn og unglingur. Í dag er hún sérfræðingur í myndlist og lektor í listfræði við Háskóla Íslands.

„Það er kannski dálítið óvenjulegt fyrir höfund að þær tvær listgreinar sem ég þekki best eru nútímadansinn og myndlist en ekki bókmenntir. Ég fylgist ennþá vel með nútímadansi, og eflaust hefur þetta heilmikil áhrif á mig.

Það sem mér finnst til að mynda svo frábært við dansinn er að þar er skynheimurinn óháður plotti eða sögu. Mér finnst erfitt að búa til plott og plott í raun ofmetið fyrirbæri í leikhúsi.

Viðfangsefni leikbókmennta eru eilífar endurtekningar í sjálfu sér. Þannig er Ekki hætta að anda eflaust mest abstrakt af mínum verkum en ég vona bara að ég fái skammirnar en ekki leikhópurinn því þau hafa unnið svo frábært starf.“

Þetta er í fyrsta sinn sem Auður Ava tekst á við að skrifa fyrir leikhóp eftir pöntun og fyrir hana fólst mikil áskorun í því að skrifa verk utan um fjórar konur.

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég er beðin um að skrifa fyrir frjálsan leikhóp eða yfirleitt beðin um að skrifa nokkuð og ég var snortin yfir því að vera fengin til verksins. Það fólst þó mikil áskorun í því að skrifa fyrir fjórar konur og vera þannig án samræðu eða átaka kynjanna. Mér fannst líka í upphafi að það hefði verið léttara að skrifa fyrir oddatölu, til dæmis ef þetta hefðu verið þrjár persónur eða jafnvel fimm.

Svo þegar ég var að hefjast handa fyrripart sumars í leit að lausnum, horfði ég á úrslitaleikinn á HM í fótbolta á milli Þýskalands og Argentínu og við það opnaðist ákveðinn heimur. Ég veit ekki mikið um fótbolta en tók eftir því að þegar einn leikmaður þýska liðsins skipti um stöðu, breyttist staða og valdajafnvægi allra hinna í liðinu líka, samkvæmt einhverju dularfullu kerfi sem minnti á mynsturdans. Andstæðingarnir voru meira í frjálsum spuna.

Þetta opnaði fyrir mér leið inn í verkið og sýn á möguleg átök. Kynjajafnvægi kæmist á með því að láta verkið snúast um karlmann og samband kvenpersónanna við hann þrátt fyrir að hann sé ekki til staðar á leiksviðinu.“

Ekkert ljós án myrkurs

„Karlmaðurinn í verkinu er látinn en nærvera hans tengir þessar fjórar konur sem eru barnsmæður hans. Í því sambandi getur fólk fundið trúarlegan streng lífgjafans en einnig ákveðna nálgun við umhverfismál og heimspólitík. Það má kannski segja að ég sé að skrifa um leitina að ljósinu en það er ekki hægt án þess að vera í myrkrinu. Það er ekkert ljós án myrkurs, ekkert líf án dauða.“

Úr mínum höndum

„Þegar ég er búin að skrifa leikrit sleppi ég af því hendinni og leikstjóri og leikhópurinn tekur við. Ég þekki alveg mín takmörk.

Ég tel líka að Stefán Jónsson hafi mjög skýra og persónulega sýn á leikhúsið og eigi að fá að vinna í friði með hópnum sem kemur að verkinu. Ég er mjög sátt við þá leið sem þau velja og held að sú staðreynd að leikstjórinn hafi labbað einn síns liðs þá fornu pílagrímsleið, Jakobsveginn, í sumar, sé mikilvæg.

Auðvitað er ég með smá skrekk gagnvart viðtökunum en þetta er úr mínum höndum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.