Innlent

Vilja slíta samstarfi við Reykjanesbæ um málefni fatlaðra

ingvar haraldsson skrifar
Anna Lóa Ólafsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, segir samstarf í málefnum fatlaðra ekki hafa gengið sem skyldi í núverandi mynd.
Anna Lóa Ólafsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, segir samstarf í málefnum fatlaðra ekki hafa gengið sem skyldi í núverandi mynd. vísir/gva
Garður, Vogar, Sandgerði og Grindavík vilja slíta samstarfi við Reykjanesbæ um málefni fatlaðra.

Velferðarráðuneytið heimilar sveitarfélögunum það ekki því þar búa færri en átta þúsund íbúar. Sveitarfélögin uppfylla því ekki ákvæði laga um lágmarksfjölda íbúa á einu þjónustusvæði fyrir fatlaða. Ráðuneytið segir þó að lögunum verði mögulega breytt í kjölfar þess að endurmati á málaflokknum ljúki í vor.

Við endurnýjun þjónustusamnings um málefni fatlaðra sem átti að renna út um áramótin fór Reykjanesbær fram á að verða leiðandi sveitarfélag eða sjá um málaflokkinn einn. Ef Reykjanesbær yrði leiðandi sveitarfélag myndi bærinn fá fjármagn frá hinum sveitarfélögunum og sjá um þjónustu við fatlaða fyrir þau.

Anna Lóa Ólafsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, segir samstarfið hafi ekki gengið sem skyldi.
Anna Lóa Ólafsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, segir ástæðu þess að Reykjanesbær vilji verða leiðandi sveitarfélag þá að samstarfið í núverandi mynd hafi ekki gengið sem skyldi. „Það ætluðu allir að vera að vasast í þessu og það gekk aldrei upp,“ segir Anna Lóa.

Væru að framselja valdi

Hin sveitarfélögin fjögur vildu ekki sætta sig við forystu Reykjanesbæjar í málaflokknum. „Við værum að framselja talsvert mikið vald á þjónustu við okkar íbúa og hefðum ekkert um þjónustuna að segja nema í einhverju samráði,“ segir Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri Grindavíkur.

Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir engin gild rök fyrir því að Grindavíkurbær geti ekki séð um málefni fatlaðra sjálft
Grindvíkingar vilja fá að sjá um þjónustu við fatlaða sjálfir en Vogar, Garður og Sandgerði stefna að því að verða eitt þjónustusvæði. Róbert á ekki von á því að notendur þjónustunnar myndu finna mikið fyrir breytingunni ef þjónustusvæðið yrði brotið upp. Nú sé félagsþjónusta rekin sérstaklega í Grindavík sem og sameiginlega í Vogum, Garði og Sandgerði. „Við eigum frekar von á því að við getum nýtt kosti smæðarinnar,“ segir hann.

Engin gild rök fyrir lágmarkinu

Þá segir Róbert engin gild rök fyrir því að svæði með færri en átta þúsund íbúum geti ekki sinnt þjónustu við fatlaða. Lágmarkið hafi verið miðað við íbúafjölda á Vestfjörðum í kringum aldamótin en Vestfirðir hafi þá verið fámennasta þjónustusvæðið fyrir fatlaða.

Sveitarfélögin fjögur munu funda með samráðsnefnd velferðarráðuneytisins um málefni fatlaðs fólks á næstunni þar sem farið verður yfir málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×