Innlent

Vill skýrari reglur um trúnaðarskyldu starfsmanna

fanney birna jónsdóttir skrifar
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, vill fá svör um trúnaðarskyldu starfsmanna Alþingis í kjölfar skýrslu lögreglunnar um búsáhaldabyltinguna.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, vill fá svör um trúnaðarskyldu starfsmanna Alþingis í kjölfar skýrslu lögreglunnar um búsáhaldabyltinguna. Fréttablaðið/Anton
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, hefur lagt fram fyrirspurn á Alþingi til forseta þingsins um orð og athafnir þingmanna.

Í fyrirspurninni spyr Jón Þór hvort þagnarskylda og trúnaður starfsmanna þingsins nái ekki til alls þess sem alþingismenn segja og gera á Alþingi og þess sem starfsmenn geta orðið vitni að.

Vísar hann í minnisblað frá lagaskrifstofu þingsins til forsætisnefndar upp úr skýrslu Geirs Jóns Þórissonar, fyrrverandi lögreglustjóra, um skipulag lögreglu við mótmælin 2008 til 2011. Þar komi fram að starfsmenn þingsins hafi upplýst lögreglu um orð og athafnir þingmanna sem voru í húsakynnum þingsins.

Jón Þór Ólafsson
Niðurstaða minnisblaðsins sé sú að „ekki verði séð að þagnarskylduákvæði starfsmannalaga taki til þess“ og að ekki sé „tilefni til frekari athugana af hálfu skrifstofu þingsins“.

„Mér finnst það óljóst hverjar skyldurnar eru, bæði fyrir starfsfólkið og eins fyrir þingmenn, hvernig trúnaðarsambandi á milli þeirra er háttað. Þetta þarf að vera á hreinu,“ segir Jón Þór í samtali við Fréttablaðið.

„Það kemur fram að lögreglan hafi spurt starfsmenn spurninga um ákveðna þingmenn og eins að lögreglan hafi heyrt starfsmenn ræða sín á milli um ákveðna þingmenn. Ég vil vita hvort þingmönnum og starfsmönnum sé skylt að svara lögreglunni um orð þingmanna og athafnir. Og eins hvort lögreglan hafi heimildir til að spyrja þessa aðila og hvort þeim beri þá skylda til að svara. Verður lögreglan að vera í einhverjum sérstökum erindagjörðum til að svo sé, það er að rannsaka eitthvað ákveðið mál eða brot.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×