Menning

Læsi undirstaða margs

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Það eru þrjú ár síðan við hófum átak í að sporna við lestrarerfiðleikum barna,“ segir Guðrún.
„Það eru þrjú ár síðan við hófum átak í að sporna við lestrarerfiðleikum barna,“ segir Guðrún. Mynd/úr einkasafni
„Þingið er þáttur í að auka fræðslu um lestrarvanda barna bæði meðal almennings og fagfólks. Þar verða stuttir fyrirlestrar frá fólki sem þekkir vandamálið frá ýmsum hliðum og þingið er opið öllum meðan húsrúm leyfir,“ segir Guðrún Björt Yngvadóttir um málþing í Norræna húsinu á morgun, fimmtudag milli klukkan 16.30 og 18.30.

Guðrún Björt situr í alþjóðastjórn Lionshreyfingarinnar.

„Það eru þrjú ár síðan við hófum átak í að sporna við lestrarerfiðleikum barna og nokkrir af viðburðum okkar hafa verið árvissir, þar á meðal svona málþing. Svo dreifum við bókamerkjum til tíu ára barna í gegnum skólakerfið til að hvetja þau til lestrar. Fengum ljóð eftir Þórarin Eldjárn sem er vel þekktur meðal barna og er skemmtilegur og fyndinn. Í ljóðinu fjallar hann um hvernig bókin getur léð fólki vængi og opnað nýja veröld. Bók í hönd og þér halda engin bönd, bók í hönd og þú berst niður á strönd, bók í hönd og þú breytist í önd, bók í hönd, beint út í lönd.“

Guðrún segir verkefni tengd læsi barna í framkvæmd víða um land.

„Lionsklúbbar úti um allt land eru með fasta viðburði í sínum skólum og nokkrir klúbbar aðstoða börn af erlendum uppruna við heimanám og lestur enda er læsi undirstaða svo margs,“ segir Guðrún og bætir við að átakið nái til 210 landa heimsins.

Eftir ávarp Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra á málþinginu mun Guðrún Björt kynna lestrarátak Lions. Næst mun Sigríður Ólafsdóttir doktorsnemi fjalla um áhrif tvítyngis á þróun læsis og Dröfn Vilhjálmsdóttir kynna verkefni bókasafns Seljaskóla sem miðar að því að efla lestraráhuga nemenda.

Ingibjörg Ingólfsdóttir segir frá námskeiði byggðu á Davis-aðferðinni, fyrir foreldra barna sem eru í efstu deildum leikskóla og grunur leikur á að þrói með sér lestrarörðugleika.  Lestina rekur Guðni Olgeirsson sem kynnir hugmyndir vinnuhóps menntamálaráðuneytisins um aðgerðir til að bæta læsi grunnskólabarna.

Fundarstjóri er Jón Bjarni Þorsteinsson, fyrrverandi alþjóðastjórnarmaður Lions.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×