Menning

Búningar Bjarkar sýndir á MoMA

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Björk Guðmundsdóttir í búningnum, en myndin var á plötuumslagi Volta.
Björk Guðmundsdóttir í búningnum, en myndin var á plötuumslagi Volta. Mynd/ Inez Van Lamsweerde og Vinoodh Matadin.
Á yfirlitssýningu Bjarkar Guðmundsdóttur á MoMA-safninu í New York verður meðal annars að finna búning sem Gjörningaklúbburinn gerði fyrir plötuna hennar Volta. „Við gerðum þennan búning fyrir hana árið 2007 en hún er í honum inni í umslaginu á Volta,“ segir Jóní Jónsdóttir ein af myndlistarkonunum í Gjörningaklúbbnum, en með henni eru þær Eirún Sigurðardóttir og Sigrún Hrólfsdóttir myndlistarkonur.

Mikil vinna fór í að gera búninginn fyrir Björk. „Það tók okkur þrjár nokkra mánuði að gera hann, en þetta er stór og þungur heklaður keipur. Búningurinn var aðallega gerður fyrir plötuumslagið, en hún notaði hann nokkrum sinnum í upphafi tónleika á Volta-tónleikaferðalaginu og fór svo fljótt úr honum því hann er mjög þungur og heitur,“ segir Jóní.

Innblásturinn segir hún hafa komið frá plötunni sjálfri. „Volta er mjög rytmísk og takturinn er oft þungur. Þessi þungi og massi skilar sér í búningnum, sem er meðal annars innblásinn af Afríku og mjög litríkur,“ segir hún. Samstarfið milli þeirra og Bjarkar kom til eftir að Björk sá sýninguna „Cardiac Circus“ sem þær gerðu 2004 í gallerí i8. „Þar var meðal annars verk sem samanstóð af heklaðri grímu, nælonsokkabuxnabrjósti og hekluðum stígvélum, sem var eins og fuglshamur fyrir manneskju,“ segir Jóní.

Búningurinn fyrir Volta var mikil samvinna. „Björk kom með sínar hugmyndir og athugasemdir út frá tilfinningu plötunnar, hún vissi alveg hvað hún vildi, við tókum það svo áfram og unnum út frá okkar hugmyndum og verkfræði. Það var alveg ótrúlega gaman og mikill heiður að vinna með henni,“ segir Jóní.

Fyrir MoMA-sýninguna hefur Gjörningaklúbburinn unnið ný verk sem meðal annars tengjast Volta-búningnum og Volta-tónleikaferðinni. Þau verk eru gerð eingöngu fyrir MoMA og Bjarkarsýninguna. MoMA keypti þessi verk sem er frábært og skemmtilegt fyrir okkur. Vonandi leiðir þetta allt eitthvað meira og skemmtilegt af sér,“ segir Jóní.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.