Lífið

Lúxusþyrluferðir Íslendinga orðnar vinsælar á ný

Guðrún Ansnes skrifar
Borið hefur á auknum áhuga Íslendinga á lúxusferðum þar sem þyrlur eru leigðar og kampavínið flæðir.
Borið hefur á auknum áhuga Íslendinga á lúxusferðum þar sem þyrlur eru leigðar og kampavínið flæðir.
„Við höfum boðið upp á þyrluþjónustuna í tvö ár, en höfum farið heldur lágt með þetta þar til nú,“ segir Gunnar Traustason, framkvæmdastjóri viðburðafyrirtækisins G- events. Hann segist finna fyrir mjög auknum áhuga Íslendinga á lúxusferðum, þar sem þyrlur eru leigðar og kampavín drukkið.

„Manni finnst mikilvægt að lesa alltaf í stemninguna í þjóðfélaginu varðandi hvað við bjóðum upp á hverju sinni,“ útskýrir Gunnar og bætir við: „Nú virðist einfaldlega komin upp sú staða að svona ferðir eiga upp á pallborðið á Íslandi.“

Talsmenn fyrirtækja í sama geira finna einnig fyrir auknum áhuga á lúxusferðum. „Viðskiptavinir okkar vilja eyða meiru í viðburði og upplifun heldur en fyrir ári,“ segir Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri Silent, sem sérhæfir sig meðal annars í viðburðaráðgjöf og tekur undir með Gunnari.

„Við finnum fyrir auknu fjármagni veitt í viðburði þar sem kallað er eftir meiri íburði. Þótt fyrirtæki hafi vissulega getað leyft sér meiri lúxus fyrir nokkrum árum var það ekki gert. Nú finnum við hins vegar fyrir því hvernig er að liðkast um í þessum efnum.“ Sigrún Nikulásdóttir hjá Now Moments segir sömu söguna. „Ég segi kannski ekki að 2007 sé komið aftur en það nálgast óðfluga.“

Mætir óskum viðskiptavina Gunnar Traustason, framkvæmdastjóri G-Events, segir fyrirtækið sérhæfa sig í stórum hópum.
Siglingapartí vinsæl

„Í kjölfar hrunsins þótti ekki í tísku að láta berast mikið á, þvert á móti. Nú eru menn farnir að gera vel við sig. Þjóðfélagið er að lifna aftur við,“ segir Gunnar.

Eftirspurnin hefur aukist mest í bátsferðum og siglingum, sem jafnframt er dýrasta þjónusta sem fyrirtæki Gunnars býður. „Fólk er orðið miklu tilbúnara að panta dýrari útgáfur, svo sem flottari mat, þekktari skemmtikrafta og meira er veitt í veislunum,“ segir Gunnar. 

Ekki einskorðað við ríka útlendinga

Kúnnahópur Gunnars er fjölbreyttur og þvertekur hann fyrir að útlendingar séu í meirihluta. „Við erum að sjá mjög jafna skiptingu. Við fáumst aðallega við stóra hópa en reglulega koma fyrirspurnir frá þekktum erlendum einstaklingum sem vilja skoða hvað við höfum upp á að bjóða,“ segir Gunnar og bætir við að fyrirtækið leggi sig fram við að mæta öllum óskum viðskiptavina sinna. 

„Þó við sérhæfum okkur í stórum hópum, innlendum jafnt sem erlendum, myndum við ekkert segja nei við fólk eins og Jay-Z og Beyoncé,“ segir Gunnar bjartsýnn á framtíðina.


Tengdar fréttir

Beyonce og Jay-Z í Bláa lóninu

Bandaríska ofurparið Beyoncé og Jay-Z eru eins og fram er komið á landinu. Ætla þau að halda upp á 45 ára afmæli rapparans sem hann fagnar þann 4. desember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×