Skoðun

Keflavíkurflugvöllur besti flugvöllur í Evrópu

Björn Óli Hauksson skrifar
Keflavíkurflugvöllur var nú á dögunum valinn besti flugvöllur í Evrópu 2014 af alþjóðasamtökum flugvalla, Airports Council International. Viðurkenningin er mikið ánægjuefni fyrir Keflavíkurflugvöll en hún er byggð á viðamikilli þjónustukönnun meðal farþega sem framkvæmd er á öllum helstu flugvöllum um allan heim.

Könnunin mælir fjölmarga þætti sem snerta t.d. kurteisi og hjálpsemi starfsfólks, þægindi við tengiflug, notalegt andrúmslofti og hreinlæti. Einnig er spurt um ánægju með afgreiðslu farangurs, aðgengi að farangurskerrum, bankaþjónustu og veitingastaði svo eitthvað sé nefnt.

Það er fólkinu sem vinnur á flugvellinum, hvort sem það vinnur hjá Isavia, rekstraraðilum, lögreglu eða tollgæslu, að þakka að flugvöllurinn hefur enn og aftur hlotið viðurkenningu sem besti flugvöllur í Evrópu. Þessu fólki vil ég óska sérstaklega til hamingju með árangurinn, en það veitir ætíð framúrskarandi þjónustu þrátt fyrir aukið álag og síbreytilegar aðstæður sem skapast hafa í kjölfar gífurlegrar farþegafjölgunar, en 2014 var stærsta ár í sögu flugvallarins. Vinna allra þessara aðila hefur skilað miklum árangri sem birtist í því að Keflavíkurflugvöllur var einnig, síðastliðið sumar, settur á heiðurslista alþjóðasamtaka flugvalla, fyrir samfelldan árangur í þjónustukönnunum frá árinu 2008.

Okkar markmið er að viðhalda því góða orðspori sem við höfum skapað okkur og halda áfram að leggja áherslu á að bjóða farþegum okkar upp á mestu gæði og þjónustu sem við eigum völ á. Af þeim sökum stöndum við að umfangsmiklum breytingum til að takast á við nýja tíma. Þær stækkunarframkvæmdir sem nú eru í gangi fela í sér 5.000 fermetra viðbót við flugvöllinn, en einnig er unnið að breytingum á verslunar- og veitingasvæði flugstöðvarinnar. Að loknum breytingum mun flugvöllurinn vera betur í stakk búinn til að taka á móti auknum farþegafjölda og veita enn betri þjónustu, sem stuðlar að betri vinnustað fyrir alla þá einstaklinga sem starfa á Keflavíkurflugvelli.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×