Menning

Tók bara ekki eftir að tíminn liði svona fljótt

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
 Gerrit og Rannveig hafa átt gott samstarf í gegnum tíðina og meðal annars gefið út tvo diska með ljóðatónlist.
Gerrit og Rannveig hafa átt gott samstarf í gegnum tíðina og meðal annars gefið út tvo diska með ljóðatónlist. Fréttablaðið/GVA
„Það er langt síðan við Gerrit höfum starfað saman, það var held ég 2007 en ég söng hér á landi síðast á Myrkum músíkdögum 2009. Nú eru tvö ár frá því ég kom heim síðast í prívaterindum. Hef bara verið upptekin á öðrum slóðum og tók ekki eftir því að tíminn liði svona fljótt,“ segir Rannveig Fríða Bragadóttir mezzosópransöngkona.

Hún ætlar að syngja í Hannesarholti á morgun, sunnudag, klukkan 16.   Gerrits Schuil leikur á píanó.

„Við erum með þó nokkur Schubert-lög, stór og falleg, meðal annars hið þekkta lag Dverginn. Það er dýrmætt að fá að syngja þau,“ segir söngkonan.

Rannveig Fríða býr í Vínarborg og hefur kennt við einsöngvaradeild Tónlistarháskólans þar síðan 2008. Í fyrra fékk hún prófessorsstöðu við þennan virta skóla og segir það ástæðuna fyrir því hversu sjaldan hún kemur í söngferðir til Íslands.

„Ég kenni dálítið mikið og einbeiti mér að því. Einsöngurinn og kennslan eru tvö störf og ég get ekki sinnt þeim báðum vel svo ég verð að velja á milli.

Ég syng auðvitað við kennsluna á hverjum degi þannig að ég nota mitt hljóðfæri þar. En ég verð að hugsa um framtíðina, hvað ég geti gert þegar ég eldist og það er að kenna, maður kemst ekkert í svona stöðu hvenær sem er.“

Sjálf lærði Rannveig Fríða við einsöngvaradeild Tónlistarháskólans í Vín á sínum tíma eins og margir okkar bestu söngvara. Þar kenndi Svanhvít Egilsdóttir í áratugi en Rannveig kveðst ekki hafa verið í tímum hjá henni heldur Helene Karusso sem einnig hafði sterkt samband við Ísland.

Rannveig Fríða kveðst kenna stúlkum frá ýmsum löndum en engri frá Íslandi eins og er. Hún er á förum út aftur á mánudaginn enda mánaðarlöngu vetrarfríi í skólanum að ljúka. „Nemendurnir sem stunda einsöngsnám eru orðnir óþreyjufullir að komast í tíma,“ segir Rannveig Fríða. „Ég get ekkert afrækt þá lengur.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.