Viðskipti innlent

Reisa 3.000 tonna landeldisstöð í Grindavík

svavar hávarðsson skrifar
Framleiðsla eldisfisks í landstöðinni mun skapa 40 varanleg störf.
Framleiðsla eldisfisks í landstöðinni mun skapa 40 varanleg störf. mynd/guðbergur
Matorka ehf. hyggst byggja þrjú þúsund tonna fiskeldisstöð í Grindavík og hefur vegna verkefnisins gert fjárfestingarsamning við stjórnvöld um ívilnanir til næstu tíu ára að verðmæti 425 milljónir króna.

Um landeldi er að ræða þar sem fyrirtækið mun samkvæmt samningi við HS Orku nýta affallsvatn frá Svartsengi til framleiðslunnar. Jarðhitinn frá Svartsengi mun gera félaginu kleift að framleiða mikið magn af hágæða laxfiski við kjörhitastig allan ársins hring. Framkvæmdir við þessa stærstu landeldisstöð landsins munu hefjast á næstu vikum; um svokallaða fjöleldisstöð er að ræða og því kemur eldi á mörgum tegundum fisks til greina.

Heildarfjárfesting verkefnisins er tæpar 1.430 milljónir króna. Félagið stefnir að því að hefja framleiðslu á árinu 2015 og að fullum afköstum í starfseminni verði náð á árinu 2016.

Matorka er í blönduðu eignarhaldi Íslendinga og erlendra fjárfesta. Í tilkynningu frá fyrirtækinu er sérstaklega til þess tekið að landstöð eins og þessi mengar ekki hafið og ógnar því síður villtum laxastofnum við Ísland.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×