Fótbolti

Svara stelpurnar fyrir sig með sigri á Noregi eins og í fyrra?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir kom inn á sem varamaður síðast.
Dagný Brynjarsdóttir kom inn á sem varamaður síðast. vísir/getty
Stelpurnar okkar spila annan leik liðsins á Algarve-mótinu í fótbolta í dag þegar þær mæta Noregi. Ísland tapaði fyrsta leik riðilsins á miðvikudaginn þegar liðið laut í gras gegn Sviss, 2-0.

Í fyrra tapaði Íslands fyrsta leiknum gegn Þýskalandi, 5-0, en þá var fall fararheill. Ísland vann næstu tvo leiki í riðlinum og vann leikinn um bronsið á móti Svíþjóð.

Annar leikur Íslands á Algarve-mótinu fyrir ári síðan var einmitt á móti Noregi, en þá unnu okkar stelpur, 2-1. Mist Edvardsdóttir skoraði fyrra markið og Harpa Þorsteinsdóttir tryggði Íslandi sigurinn með marki á 86. mínútu leiksins.

Þetta verður þriðji leikur liðsins á Algarve-mótinu. Ísland vann þann fyrsta, 3-1, árið 2009 þar sem Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði tvö mörk. Ári síðar vann Noregur, 3-2, en þá skoruðu Margrét Lára Viðarsdóttir og Hólmfríður Magnúsdóttir mörk íslenska liðsins.

Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari stillir mögulega upp sterkara liði í dag en á móti Sviss. Dagný Brynjarsdóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir og markvörðurinn Guðbjörg Gunnarsdóttir byrjuðu allar á varamannabekknum í síðasta leik og koma líklega inn í liðið.

Katrín Ómarsdóttir verður þó ekki meira með eins og kom fram í gær, en hún getur ekki getur ekki tekið þátt vegna höfuðhöggs sem hún fékk í leik með Liverpool á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×