Lífið

Býður safngestum heim í kínverskt te

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Lokrekkja sem er á safninu kostaði sjö milljónir króna og ekki furða þar sem mublan er algjört listaverk, öll útskorin og segja myndirnar heilu sögurnar.
Lokrekkja sem er á safninu kostaði sjö milljónir króna og ekki furða þar sem mublan er algjört listaverk, öll útskorin og segja myndirnar heilu sögurnar. vísir/valli
Unnur rekur ferðaskrifstofuna Kínaklúbbur Unnar og fer sjálf sem fararstjóri á hverju ári til Kína. Hún býr á Njálsgötunni í húsi sem er yfirfullt af kínverskum munum og húsgögnum. Nú hefur hún opnað safn í bakhúsi á lóðinni. Safnið var opnað um síðustu helgi og verður opið framvegis um helgar.

„Síðast var mér ekki búið að detta í hug að bjóða fólki heim, en svo hugsaði ég með mér að heimili mitt væri eins og framhald af safninu enda fullt af kínverskum munum. Svo býð ég upp á ekta kínverskt te sem ég kaupi í lausavigt í Kína og að sjálfsögðu er það drukkið úr ekta kínversku postulíni.“



Í þessum bauki geymir Unnur kínversku telaufin.vísir/valli
Unnur fer í tvær ferðir til Kína með hópa á þessu ári. Hún segir Íslendinga mjög áhugasama um landið.

„Margir fara tvisvar, nokkrir hafa farið þrisvar og einn hefur farið fjórum sinnum. Með ferðunum í ár hef ég skipulagt 37 ferðir til Kína á síðustu 23 árum,“ segir Unnur og svarar spurningunni hvort hún fái aldrei nóg af Kína neitandi og bætir við:

„Þegar maður fer að þekkja og kunna á eitthvað þá getur maður fyrst farið að draga eigin ályktanir og það er algjört kikk.“ 

Á ferðum sínum hefur Unnur sankað að sér fallegum kínverskum munum og þegar um stærri hluti er að ræða lætur hún senda sér þá, til að mynda lokrekkjuna sem er aðeins of stór til að komast í ferðatöskuna.

„Lokrekkjan er eins og herbergi inni í herbergi. Hún kostaði sjö milljónir króna með sendingarkostnaði. Fólk svaf í þessum rekkjum og sat í þeim á daginn, með sérsniðin borð og drakk te.“

Unnur býður upp á kínverskt te, bæði grænt og svart, sem hún kaupir í lausavigt í Kína.vísir/valli
Hugmyndina að Kínasafninu fékk hún eftir að hafa keypt tvö lítil hús í bakgarðinum.

„Annað húsið var ónýtt, ég lét rífa það og er að byggja nýtt sem ég ætla að leigja út. Hitt var gamalt hesthús, eingöngu með útveggjum og því tilvalið sýningarhús. Fólk var alltaf að segja að heimili mitt væri eins og safn. Þannig að ég flutti bara fullt af dóti af heimilinu yfir í hesthúsið og opnaði safn. Í sannleika sagt sést ekki högg á vatni hér heima. Ég var hreinlega með alltof mikið í íbúðinni,“ segir Unnur hlæjandi að lokum. 

Kínasafn Unnar er opið laugardaga og sunnudaga kl. 14.00 - 16.00, að Njálsgötu 33a. Eftir lokun safnsins er safngestum boðið að skoða heimili Unnar að Njálsgötu 33 og þiggja tesopann góða. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×