Lífið

Einhleyp og sátt í ítölskum smábæ

Elín Albertsdóttir skrifar
Sólrún lét drauma sína rætast, flutti í smábæ á Ítalíu og segist aldrei hafa verið sáttari við lífið.
Sólrún lét drauma sína rætast, flutti í smábæ á Ítalíu og segist aldrei hafa verið sáttari við lífið. Mynd/vilhelm
Sólrún Bragadóttir óperusöngkona stendur á tímamótum í lífinu. Hún er nýskilin í þriðja skiptið og hefur komið sér fyrir í litlum bæ á Ítalíu. Á þriðjudaginn kemur verður hún með hádegistónleika í Hörpu.



Sólrún kom til landsins á fimmtudagskvöld og var því nýlent þegar við náðum tali af henni. Á þriðjudag verður hún með hádegistónleika Íslensku óperunnar í Norðurljósum í Hörpu undir nafninu Ástir trygglyndra kvenna. Þar mun hún syngja um kvenpersónur sem leggja allt í sölurnar fyrir ástina. Sjálf býr hún ein ásamt hundinum sínum í Umbria-héraði á Ítalíu, í litlum fjallabæ sem liggur miðja vegu á milli Rómar og Flórens. „Það var alltaf draumur minn að búa á Ítalíu. Mér finnst andinn þar eiga einstaklega vel við mig, þetta hæga tempó. Allt í einu kom tækifærið upp í hendurnar og við hjónin rifum okkur upp og fluttum. Við bjuggum á dönsku eyjunni Mön þar sem mig langaði að byggja upp listasetur. Það verkefni óx í höndunum á mér á kostnað söngsins.



Stúderar ástina

Það er svo undarlegt hvernig lífið getur breyst á skammri stundu. Stuttu eftir að við fluttum til Ítalíu var ég allt í einu orðin einhleyp á ný. Ég hef því nýverið gengið í gegnum skilnað en hef sjaldan á ævinni verið sáttari og liðið jafnvel,“ segir Sólrún, en hún hefur búið í Danmörku í fjórtán ár, þar á undan í Þýskalandi í tólf ár og í Bandaríkjunum í fimm ár. „Svo kem ég alltaf reglulega í heimsókn til Íslands,“ segir Sólrún sem á tvö uppkomin börn hér á landi. Söngvarann Braga Bergþórsson og dótturina Berglindi Lilju sem er nýflutt hingað til lands eftir að hafa alist upp á erlendri grund.

Sólrún er þrígift en síðasti eiginmaðurinn er Þjóðverji. Þau áttu ekki barn saman. „Mér líður einstaklega vel á Ítalíu,“ segir hún. „Ég bý í yndislegu umhverfi, ein með sjálfri mér auk þess að vinna að hinum ýmsu verkefnum. Tæknin gerir vinnuna auðvelda. Ég get til dæmis verið með kennslustund í gegnum Skype. Svo hef ég verið að undirbúa tónleika. Næstu tónleikar eru hér á þriðjudag þar sem þemað passar ágætlega við breytinguna í lífi mínu. Mér finnst gaman að stúdera ástina og þetta eru ólíkar konur sem ég tjái í gegnum tónlistina,“ segir Sólrún en hún mun meðal annars bregða sér í hlutverk Leónóru úr Valdi örlaganna, Elísabetar úr Tannhäuser, Santuzzu úr Cavalleria Rusticana og Maddalenu úr Andrea Chénier. „Svo verð ég með tónleika í Norræna húsinu 1. apríl. Þeir tónleikar nefnast Klassík í Vatnsmýrinni. Með mér verður Anna Málfríður Sigurðardóttir píanóleikari.“

Rómantískt umhverfi

Sólrún ætlar að vera á Íslandi fram yfir páska, knúsa börn sín og tvö barnabörn sem hún hittir sjaldan. „Ég reyni yfirleitt að vera hér í þrjár-fjórar vikur. Það er svo gaman að hitta fjölskylduna. Á Ítalíu er varla hægt að tala um vetur en þó verður mjög kalt í janúar og febrúar þar sem húsin eru ekki kynt. Maður þarf að vera kappklæddur innan dyra. Mér finnst samt ótrúlega hressandi að koma hingað í þetta veðraskap, fá vindinn í fangið. Það er góð tilbreyting sem ég myndi þó ekki vilja búa við alltaf.

Nú er vorið að koma á Ítalíu og allt að vakna í litla þorpinu mínu. Þetta er eldgamalt antíkþorp, svo ótrúlega rómantískt umhverfi. Allir íbúar heilsa manni, presturinn bankar upp á og spyr um líðan. Ef maður mætir hjólreiðamanni þá stoppar hann til að rabba. Þarna er virkilega spes stemning og allt lífið í hægagír. Mér líður mjög vel í slíku tempói. Maturinn er líka æðislegur, jafnvel fyrir grænmetisætur eins og mig. Ítalir eru auðvitað meðvitaðir um að þeir búa til besta mat í heimi. Ég get bjargað mér á ítölskunni en er að læra hana til að geta haldið uppi samræðum. Einnig eru að opnast spennandi tengsl við tónlistarlífið sem ég á eftir að notfæra mér,“ segir Sólrún.

Enginn riddari

„Ég lifi lífinu í núinu. Ef maður er upptekinn af því að hafa áhyggjur af framtíðinni þá missir maður fullt af tækifærum úr höndunum. Það á að njóta augnabliksins og því sem það færir manni. Þá gerast kraftaverk. Mér finnst rosa mikið stress í loftinu hér á landi. Jafnframt mikil sköpunargleði og gaman að fylgjast með öllum þessum skemmtilegu hlutum,“ segir hún.

Sólrún segist oft taka lagið heima í stofu en nágrannar hennar biðja oft um söng. „Senjóran á neðri hæðinni kemur þá fagnandi og segir mér að fólk hafi staðið úti á götu og hlustað. Óperan á Ítalíu er harður heimur, þar er mikil samkeppni. Ég hef ekki enn gert plön varðandi sönginn á Ítalíu. Það kemur einn daginn.“

En hefurðu fundið ástina á Ítalíu?

„Ekki enn,“ svarar Sólrún og hlær. „Ég er mjög upptekin af sjálfri mér í augnablikinu. Ég hef ekki nein áform um að binda mig aftur en ef riddarinn kemur á hvíta hestinum veit maður aldrei hvað gerist. Það gerðust margir undarlegir hlutir í lífi mínu á síðasta ári. Á meðan á þeim hamförum stóð leit allt út fyrir að vera neikvætt. Núna lít ég á þessa reynslu sem blessun. Börnin mín sögðu mér að skrifa bók um þetta allt saman og titillinn ætti að vera „Engar ýkjur,“ segir Sólrún hlæjandi og bætir því við að sér líði vel og hún hlakki mikið til tónleikanna á þriðjudag, enda er þetta í fyrsta skipti sem hún syngur í Hörpu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×