Lífið

Vann portrettmyndir af ókunnugu fólki

Laufey Jónsdóttir
Laufey Jónsdóttir Vísir/GVA
Laufey Jónsdóttir opnar sýninguna Persona í Norræna húsinu í dag. Á sýningunni má finna þrívíðar portrettmyndir af fólki sem Laufey tók viðtal við, en hún leitaðist við að finna fólk sem hún þekkti lítið, helst ekkert.

„Það var svolítið erfitt að finna fólk sem ég þekkti ekki neitt, svo ég treysti mikið á vini og vandamenn að hjálpa mér,“ segir Laufey.

Það kom henni á óvart hversu vel fólk tók í verkefnið. „Það sögðu bara allir já strax og tóku vel í þetta. Það var líka ómetanlegt hvað þau voru tilbúin að deila miklu með mér, bæði gleði og sorgum.“

Samtals fékk Laufey níu manns í verkefnið.

Hún tók klukkutíma langt viðtal við hvern og einn. Út frá viðtalinu vann hún svo portrettmyndirnar. „Fólkið málaði þannig sína eigin mynd með sínum sögum. Ég túlkaði sögurnar svo á minn hátt og túlkaði þannig hvern einstakling fyrir sig. Svo munu áhorfendur túlka það sem þeir sjá á sinn hátt,“ segir Laufey.

Laufey valdi þessa aðferð til að gefa sjálfri sér ramma til að vinna innan. „Fólkið gaf mér rammann með minningum sínum og þannig fékk ég efni til þess að vinna úr.“

Einn viðmælenda Laufeyjar var nágranni hennar, sem hvorki talar ensku né íslensku. „Við höfum verið vinir lengi, en aldrei getað talað saman. Konan hans bauðst til þess að túlka fyrir mig svo ég gæti tekið viðtal við hann og kynnst honum betur,“ segir Laufey.

Sýningin verður opnuð kl. 16 í dag í Norræna húsinu og verður opin til 29. mars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×