Lífið

Neyðin kennir nöktum nemum að spotta tækifærin

Guðrún Ansnes skrifar
Kærustuparið Magnús og Unnur reka sölusíðuna saman meðfram námi í Menntaskólanum við Sund.
Kærustuparið Magnús og Unnur reka sölusíðuna saman meðfram námi í Menntaskólanum við Sund. fréttablaðið/vilhelm
Magnús Máni Hafþórsson, sautján ára menntaskólanemi, fékk hugmyndina að sölusíðunni dressed.is þegar hann tók til í skápunum heima hjá sér og vissi ekki hvað hann ætti að gera við heilu pokana af fötum. Hann kom svo síðunni á fót í síðustu viku með aðstoð kærustunnar, Unnar Óskar Burknadóttur.

„Ég sá gat í markaði og fór í að búa til síðuna. Unnur Ósk hefur svo séð um textagerðina,“ segir Magnús en síðan er hugsuð sem vettvangur fyrir fólk úr öllum áttum til að selja og kaupa notuð föt án endurgjalds. Vinsældirnar létu ekki á sér standa. Á fimm dögum hafa fimm þúsund einstakar IP-tölur verið skráðar. Ljóst þykir því að mikill uppgangur er í endurnýtingu fatnaðar hérlendis. 

„Flettingarnar á þessum tíma eru rúmlega nítján þúsund. Ég vonaðist til að ná til kannski tvö hundruð manns á dag svo þessar tölur koma rosalega á óvart,“ segir Magnús Máni himinlifandi með viðtökurnar. „Þetta er fullkomin leið til að nýta frítímann í eitthvað uppbyggilegt. Ætli við höfum ekki bara aðeins of mikinn frítíma," segir hann aðspurður um hvernig takist að samræma skólagöngu og fyrirtækjareksturinn. „Foreldrum okkar finnst þetta líka æðislega sniðugt og eru verulega stolt af frumlegu framtaki," bætir hann glaðlegur við í lokin. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×