Erlent

Ferguson ólgar enn

guðsteinn bjarnason skrifar
Íbúar í Ferguson komu saman í gær til að mótmæla framferði lögreglunnar, daginn eftir að lögreglustjórinn sagði af sér.
Íbúar í Ferguson komu saman í gær til að mótmæla framferði lögreglunnar, daginn eftir að lögreglustjórinn sagði af sér. nordicphotos/AFP
Tveir lögreglumenn urðu fyrir skotum frá leyniskyttu í fyrrinótt þegar þeir fylgdust með mótmælum í bænum Ferguson í Missouri. Annar lögreglumaðurinn fékk skot í andlitið en hinn í öxlina. Læknar telja að þeir muni ná sér að fullu þótt meiðslin séu alvarleg.

Fjöldi fólks hafði safnast saman til að mótmæla vinnubrögðum lögreglunnar, fáeinum klukkutímum eftir að skýrt var frá því að Tom Jackson lögreglustjóri myndi segja af sér.

Fleiri embættismenn borgarinnar hafa sagt af sér í kjölfar birtingar skýrslu frá dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna. Í skýrslunni er bæði lögregla og dómstólar í Ferguson gagnrýnd harðlega fyrir kynþáttamismunun.

Í skýrslunni er birt niðurstaða rannsóknar á vinnubrögðum lögreglunnar, en dómsmálaráðuneytið ákvað að gera þessa rannsókn vegna atburðanna í Ferguson í fyrrasumar þegar hvítur lögreglumaður varð óvopnuðum ungum manni, dökkum á hörund, að bana. Strax upphófust nánast dagleg mótmæli og óeirðir sem stóðu langt fram á haustið.

Reiði íbúanna beindist að lögreglunni, sem sökuð var um að fara verr með svarta íbúa bæjarins en hvíta. Skýrsla dómsmálaráðuneytisins staðfestir þá gagnrýni með afgerandi hætti.

Lögreglan er sögð hafa mismunað fólki með kerfisbundnum hætti og mörg dæmi fundust um kynþáttafordóma í samskiptum innan lögreglu og stjórnsýslu bæjarins, sem er sjálfstætt bæjarfélag innan borgarmarka St. Louis.

Auk lögreglustjórans hafa nú í vikunni bæði John Shaw, framkvæmdastjóri bæjarskrifstofu Ferguson, og fleiri háttsettir embættismenn sagt af sér. Þá hefur dómstóll borgarinnar verið settur undir áfrýjunardóm Missouri-ríkis.

Lögreglumaðurinn, sem skaut hinn 18 ára gamla Michael Brown úti á götu þann 9. ágúst, hefur einnig sagt af sér. Ákærukviðdómur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að ekki væru efni til að gefa út ákæru á hendur honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×