Lífið

Náði botninum í fangelsi

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Ísak Freyr tengir þörfina fyrir viðurkenningu við vanrækslu og fjarveru föður síns. Hann segist vera að hefja sína batagöngu. "Núna fyrst get ég horft á lífið og áttað mig á að þetta er mitt líf, ekki annarra.“
Ísak Freyr tengir þörfina fyrir viðurkenningu við vanrækslu og fjarveru föður síns. Hann segist vera að hefja sína batagöngu. "Núna fyrst get ég horft á lífið og áttað mig á að þetta er mitt líf, ekki annarra.“ vísir/vilhelm
Landsmenn fengu fyrst að kynnast Ísak Frey Helgasyni þegar hann var aðeins 17 ára gamall og var aðstoðarmaður Karls Berndsen í þættinum Nýtt útlit. Eftir það lá leiðin upp á við í förðunarbransanum. Little Talks-myndband Of Monsters and Men, indverska Vogue, Hunger Magazine og ofurfyrirsætan Cara Delevingne eru aðeins hluti af verkefnunum.

Hann er búsettur í London en er nú staddur á landinu á vegum L'Oréal og hannaði förðun fyrir sýningu Hildar Yeoman í vikunni.

Faldi hvernig honum leið

Ísak hefur getið sér gott orð í förðunarheiminum þrátt fyrir ungan aldur. Hann hefur nýtt þá velgengni til að breiða yfir mikla vanlíðan í einkalífinu, sem að lokum dró hann á botninn.

„Vinnan hefur alltaf gengið vel hjá mér. Síðar meir fór ég hins vegar að nota velgengnina til þess að breiða yfir það hvernig mér leið og beindi því athyglinni að því hvaða stjörnu ég hafði verið að farða eða hvert ég var að fara og hversu mikinn pening ég átti. Þannig náði ég að fela hvernig mér leið í raun og veru,“ segir hann.

Var alltaf öðruvísi

Ísak ólst upp á Ólafsfirði en þar varð hann fyrir miklu einelti.

„Ég var greindur snemma með ofvirkni og athyglisbrest auk þess sem ég var samkynhneigður og þar af leiðandi skar ég mig úr og ég fann alltaf að ég var öðruvísi en aðrir. Þegar þú fellur ekki inn í hópinn í svona litlu samfélagi þá upplifir þú svo mikla skömm fyrir að vera öðruvísi. Þessi skömm fylgdi mér alltaf og er eitthvað sem ég er að vinna meðvitað úr í dag. Mínir vinir voru konurnar á elliheimilinu, vinkonur ömmu minnar og konurnar í fjölskyldunni minni. Það segir nú ansi mikið um félagslífið mitt heima á Ólafsfirði.“

Foreldrar Ísaks skildu þegar hann var tveggja ára og pabbi hans var ekki viðloðandi daglegt líf hans eftir það, fyrir utan einstaka gjafir. „Mamma sá um mig alfarið, með hjálp ömmu og móðursystur minnar. Ég á samt margar góðar minningar að heiman, eins og þegar við mamma hjóluðum út í sveit eða þegar við fengum okkur göngutúra upp í fjall, en mamma var mjög dugleg að gera hluti með mér. Stundirnar sem ég átti með Stínu og Helgu, sem voru vinkonur ömmu og líka vinkonur mínar, voru mér mjög dýrmætar.“

Ísak lærði að bæla niður tilfinningar sínar og steypa sig í mót sem hentaði aðstæðum hverju sinni þegar hann var á Geldingarlæk, vistheimili fyrir unglinga.vísir/vilhelm
Lokaður inni dögum saman

Móðir Ísaks leitaði leiða til að fá hjálp fyrir Ísak þar sem hann var mjög veikur af ofvirkni, athyglisbresti og þráhyggju sem barn. Á þessum tíma var almenn þekking á þessum sjúkdómum ekki mikil. Ísak fór því í meðferð á BUGL og síðar á Geldingalæk, sem var vistheimili fyrir unglinga. Vistin var Ísak hins vegar allt annað en góð og segist hann hafa orðið fyrir mikilli tilfinningalegri misnotkun.

„Mamma taldi að mér myndi líða vel þarna, að ég fengi að skapa og vera ég sjálfur. Þetta var hins vegar eins og að vera í fangelsi. Ef ég hagaði mér ekki vel þá var ég lokaður inni dögum saman í tómu herbergi og fékk mat á bakka.“ 

Eftir nokkurra mánaða vist áttaði Ísak sig á að eftir því sem hann hagaði sér betur væri líklegra að hann fengi að fara heim.

„Ég bældi því niður allar tilfinningar og lærði þarna að steypa mig í mót sem hentaði aðstæðum hverju sinni. Þannig breiddi ég í raun yfir þá manneskju sem ég var í stað þess að kynnast sjálfum mér. Ég upplifði vistina þarna hræðilega og fólkið líka. Þegar ég fór þaðan var röskun mín orðin mun verri og sérstaklega þráhyggjan. Hún lýsti sér þannig að ég hélt stanslaust að eitthvað væri að mér, að dauðinn biði mín handan við hornið. Ég fór nánast vikulega til læknis til að athuga með ímyndaða verki. Á þessum tímapunkti var ég líka kominn með átröskun og léttist um 50 kíló á 6 mánuðum. Það var þarna sem hræðslan við lífið byrjaði líka. Ég fann að það var eitthvað að mér í höfðinu.“

Vildi verða karlmannlegri

Þennan ótta og vanlíðan tók Ísak með sér inn í fullorðinsárin. Hann var byrjaður að starfa við förðun og ferillinn gekk vel en draugarnir náðu að lokum í skottið á honum. Sumarið 2011 bjó Ísak í New York og vann sem aðstoðarmaður frænku sinnar, Andreu Helgadóttur, förðunarmeistara Bjarkar Guðmundsdóttur.

„Þegar ég fór út hélt ég að allt myndi lagast af sjálfu sér en það gerðist auðvitað ekki. Átröskunin háði mér ennþá, ég var rosalega grannur og mikið inni í mér. Ég safnaði síðu hári og var mjög kvenlegur, en þegar ég kom heim henti ég öllum fötunum mínum, klippti á mér hárið og keypti mér strákalegri föt. Ég var því í raun mjög leitandi að sjálfum mér ennþá.“

Ísak færði sig síðan frá New York til London árið 2012 til að koma sér inn í bransann þar. Þar kynntist hann manni sem hann flutti inn til, en þeir höfðu verið í fjarsambandi í nokkurn tíma. „Í fyrsta sinn hleypti ég manni að mér og hugsaði með mér, vá, ég er búinn að finna hann.“ 

Með konunum í lífi sínu: Ísak Freyr er afar náinn ömmu sinni, Sigrúnu Þorleifsdóttur, móður sinni, Halldóru Gestsdóttur, og móðursystur, Berglindi Gestsdóttur. Þær hafa alltaf verið bakland hans í lífinu.vísir/vilhelm
Þróaði með sér kynlífsfíkn

Fyrst um sinn var Ísak ekki að vinna og reiddi sig því algjörlega á þennan mann, en sambandið entist ekki lengi.

„Þetta var munstur sem átti eftir að endurtaka sig nokkrum sinnum. Ég þurfti alltaf að finna nýjan mann, nýjan fixer. Ég var varla búinn að ljúka einu sambandi þegar ég var kominn í annað. Ég þráði viðurkenningu og lifði fyrir kynferðislega hrifningu frá öðrum. Ég hélt að persónuleiki minn skipti engu máli og sjálfsvirðingin var engin. Ég var í rauninni að þróa með mér ástar- og kynlífsfíkn án þess að gera mér grein fyrir því. Ég þróaði einnig með mér alkóhólisma á þessum tíma, en það gerðist í raun mjög hratt. Ég stóð alltaf í þeirri trú að ef velgengni og peningar væru til staðar, en þannig var staðan mín á þessum tímapunkti, þá væri ekkert að. Sjálfsmynd mín byggðist á þessu.“

Kærður fyrir líkamsárás

Ísak varð ofbeldisfyllri með hverjum mánuðinum, skaðaði bæði sjálfan sig og aðra. Hann náði hins vegar botninum þegar hann vaknaði í einangrunarklefa eftir slagsmál við þáverandi kærastann sinn og fékk að vita að hann væri ákærður fyrir tvær líkamsárásir.

„Ég skildi það ekki. Ég ofbeldisfullur? Nei, þetta var sko þeim að kenna. Þau voru að eyðileggja fyrir mér. Ég sá ekki mína ábyrgð, það var ég sem var fórnarlambið.“ Tveimur vikum síðar var Ísak leiddur fyrir dóm og fékk sex mánaða skilorðsbundinn dóm. 

„Á þessum tímapunkti breyttist allt. Ég fór að sjá að eitthvað var að. Ég leit í spegil og þekkti ekki sjálfan mig lengur. Ég leitaði mér aðstoðar þarna því ég var mjög hræddur um mitt andlega ástand og við það hversu mikil uppsöfnuð reiði bjó innra með mér.“

Mitt líf, ekki annarra

Núna, sex mánuðum síðar, er Ísak á batavegi.

„Þetta hafa verið mjög tilfinningaþrungnir sex mánuðir, en jafnframt fallegir á vissan hátt. Þegar ég hætti að drekka komu mínar sönnu tilfinningar upp á yfirborðið og ég gat horfst í augu við sjálfan mig. Ég hafði aldrei áhuga á öðru fólki, en hef það í dag, sem er mikil breyting hjá mér.“ 

Reiðina og áráttuna fyrir að fá viðurkenningu frá öðrum tengir hann við vanrækslu og fjarveru föður síns.

„Ég er að hefja mína batagöngu og er að vinna í öllum þessum málum. Núna fyrst get ég horft á lífið og áttað mig á að þetta er mitt líf, ekki annarra. Ég er ekki hræddur við að vera einn með sjálfum mér. Lífið snýst um svo miklu meira.

Í dag vinnur Ísak sjálfstætt í gegnum umboðsskrifstofu ásamt því að vera styrktur af snyrtivörurisum eins og L'Oréal og Dermalogica.

„Vinnan gengur vel og ást mín á förðun er komin aftur. Ég gerði þetta alltaf vel, en núna gefur vinnan mér meira. Förðunina nota ég til þess að hjálpa mér að skapa og tjá mig, en einnig nota ég myndlist. Ég er mjög sáttur við líf mitt í dag og held að mín bíði skemmtileg ævintýri.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×