Lífið

Engin hús hærri en kókospálmi

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Það var ekkert annað í boði en að bregða undir sig betri fætinum og heimsækja eina barnabarnið,“ segir Vilborg.
"Það var ekkert annað í boði en að bregða undir sig betri fætinum og heimsækja eina barnabarnið,“ segir Vilborg. Vísir/Stefán
Við vörðum síðustu jólum og áramótum og janúar hinum megin á hnettinum vegna þess að eldri sonur okkar tók sig upp með konu og eina barnabarnið okkar og fór í mastersnám í Singapúr,“ segir Vilborg Halldórsdóttir, leikkona og leiðsögumaður.



Vilborg og Helgi með Orra syni sínum, tengdadótturinni Kristínu Maríellu og barnabarninu Ylfu.
Rétt fyrir jól hélt hún á vit ævintýranna í Indónesíu, ásamt Helga Björnssyni söngvara, eiginmanni sínum.

„Við flugum til Frankfurt snemma morguns og eyddum deginum þar, meðal annars á jólamarkaði og tókum síðan kvöldflug til Singapúr,“ rifjar hún upp.



Skýjakljúfana ber við himin í Singapúr á bak við þær Vilborgu og Ylfu.
„Í vélinni var borinn fram kvöldverður og stuttu síðar lögðumst við til svefns, vöknuðum svo við að verið var að bera fram morgunmat og bara tveir tímar, af ellefu, eftir til Singapúr.“

Aðfangadagskvöld var mjög óformlegt, haldið í þakgarði í hitabeltinu og jóladagur var fjölskylduvænn að sögn Vilborgar. Svo var flogið til Balí á annan.



Ströndin í Sanúr á Balí.
„Við vorum á Balí í tvær vikur ásamt litlu fjölskyldunni. Leigðum villur á tveimur mismunandi stöðum,“ lýsir hún.

„Fyrri vikuna vorum við í Sanúr rétt við ströndina og þá seinni í Jimbaran, þar vorum við hærra uppi og með útsýni yfir eyjuna og eldfjallagarðinn.“

Reykelsi, fegurð og ljóðræna.



„Manni líður aldrei eins og í færibandatúrisma en er stöðugt að verða snortinn af fegurð og natni,“ segir Vilborg.
Vilborg segir sig lengi hafa dreymt um að koma til Balí, enda fræg lína eftir hana í textanum Mér finnst rigningin góð: Einu sinni fórum við í bað og ferðuðumst til Balí. „Ég hafði smá áhyggjur af því að ég yrði fyrir vonbrigðum en sá ótti var ástæðulaus,“ segir hún.

„Yfirvöld á Balí hafa tekið svo réttan pól í hæðina í sambandi við túrisma og innfæddir halda fast í sína menningu. Þeir eru flestir hindúatrúar, alls staðar eru hof og í hverjum garði lítið altari. Allt ilmar af reykelsi, fegurð og ljóðrænu og manni líður svo vel þegar allt er svona fallegt. Þá er svo auðvelt að slaka á,“ segir Vilborg og bætir við.



Fagur veggur í borginni Canggu.
„Það kostar líka lítið að lifa á Balí. En áfengið er dýrt, það er flutt svo langt að, af því að engin vínþrúga þrífst í hitabeltinu. Svo var mjög lélegt netsamband svo það var netfrí og áfengisfrí. Hins vegar vorum við alltaf að drekka einhverja geggjaða djúsa þannig að þetta var mjög heilandi frí.“



Gjald er tekið af ferðamönnum bæði við komu til Balí og brottför að sögn Vilborgar.

„Um milljón ferðamenn heimsækja þessa litlu eyju á ári en íbúarnir eru á fimmtu milljón,“ lýsir hún og ber lof á eyjarskeggja fyrir arkitektúrinn.



Á gamlárskvöld var flott sýning á Balídönsum og þar var líka mikið sungið.
„Ákveðið var á Balí að engin bygging mætti vera hærri en hæsti kókospálmi og sú stefna hefur breiðst út um eyjar Kyrrahafsins. Þarna er fullt af nýjum villum og fínum hótelum en allt er byggt í sátt við þann stíl sem fyrir er og tengt við fortíðina. Í nýju húsi er kannski eldgamall, útskorinn gluggi, eða jafnvel hurð, eins og 150 ára gömul. Hitt er allt nútímalegt.

Við fórum í æðislega veislu á gamlárskvöld í hóteli sem virtist gamalt, en nei, nei, þá var það byggt árið 2000. Manni líður aldrei eins og í færibandatúrisma en er stöðugt að verða snortinn af fegurð og natni.

Innfæddir á Balí eru trúir uppruna sínum og það endurspeglast í arkitektúrnum.
Hitastigið var um 30 gráður á Balí, að sögn Vilborgar. Þar eru góðar gönguleiðir, meðal annars upp á hæsta fjallið sem er eldkeila, 3.000 metra há.

„Fólk er sótt um miðnætti og er á toppi fjallsins við sólarupprás. Auk þess er boðið upp á alls konar uppbyggjandi viðfangsefni á eyjunni, jóga, batík, útskurð og dans – fyrir utan allt nuddið,“ segir Vilborg sem stefnir að því að standa fyrir ferð til Balí í haust með lítinn hóp. En hvað fannst henni um Singapúr?

„Það er alger andstæða við Balí. Singapúr er eiginlega borgríki, sirka á stærð við Reykjavíkursvæðið, allt byggt upp í loft með nútímaarkitektúr. Þar er maður í loftkældum mollum. Ég er bara ekki mollakona.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×