Lífið

Þjófurinn skildi eftir rándýr sólgleraugu

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Sigurður Gíslason var alsáttur með nýju Ray Ban-sólgleraugun sem þjófurinn skildi eftir í bílnum hans.
Sigurður Gíslason var alsáttur með nýju Ray Ban-sólgleraugun sem þjófurinn skildi eftir í bílnum hans.
„Ég ætlaði varla að trúa þessu,“ segir Sigurður Gíslason, íbúi í Breiðholti, um aðkomuna að bílnum sínum í gærmorgun, eftir að brotist var inn í hann, Toyota Corolla skutbíl. „Ég hugsaði bara strax hver hefði viljað brjótast inn í bílinn, það var ekkert verðmætt í honum.“ Þegar Sigurður settist inn í bíl sinn rann upp fyrir honum að þjófurinn hafði gleymt sólgleraugum þar. „Ég er alveg í stórgróða eftir þessa heimsókn þjófsins í bílinn. Þetta voru þessi forláta Ray Ban-sólgleraugu. Ætli þau kosti ekki um þrjátíu þúsund krónur úti í búð.“

Sigurður saknar annars einskis úr bílnum. „Þetta var allt voðalega furðulegt. Þjófurinn var búinn að leggja aftursætin niður. Kannski hefur hann bara lagt sig í bílnum. Mér þótti líka furðulegt að það var ansi góð lykt inni í bílnum eftir þjófinn. Eins konar ilmvatnslykt. Það eina sem ég held að hann hafi tekið voru einhverjir rappdiskar. Og verði honum bara að góðu. Hann getur þá hlustað á góða tónlist. Ég fékk sólgleraugu í staðinn og þau komu sér vel í sólskininu í gær.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×