Lífið

Hrífst af breyskleika

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Nanna segir að mikilvægt sé að vera með gott sjálfstraust í tónlistarbransanum og þegar maður er ekki með nógu gott sjálfstraust þurfi maður að keyra sig áfram þar sem ekki sé pláss fyrir neitt annað.
Nanna segir að mikilvægt sé að vera með gott sjálfstraust í tónlistarbransanum og þegar maður er ekki með nógu gott sjálfstraust þurfi maður að keyra sig áfram þar sem ekki sé pláss fyrir neitt annað. vísir/vilhelm
Hljómsveitin Of Monsters and Men lagði heiminn að fótum sér í kjölfar fyrstu plötu sinnar, My head is an animal. Bókstaflega. Þau voru á tónleikaferðalagi í 18 mánuði og héldu 230 tónleika á því tímabili úti um allan heim. Þau komu heim haustið 2013 og hófust handa við að undirbúa næstu plötu. Nú er sú plata, Beneath the skin, tilbúin og fyrsta smáskífan, Crystals, kom út í vikunni. Platan kemur út í byrjun júní og mun hljómsveitin fylgja henni eftir með öðru ferðalagi um heiminn.

Nanna Bryndís Hilmarsdóttir, gítarleikari og söngkona hljómsveitarinnar, segir að ferðahugur sé kominn í hana.

„Ég er alveg tilbúin til að fara af stað aftur. Mér finnst þetta svo ótrúlega gaman. Það kom mér reyndar á óvart á síðasta ferðalagi hvað þetta á vel við mig. Ég hef alltaf verið þannig að ég þarf mitt pláss og vera ein. Þegar við erum á tónleikaferðalagi erum við um tuttugu í einni rútu en mér finnst rútan bara hugguleg. Svo getur maður alltaf verið einn ef maður vill, farið í göngutúr og svona.“

Nanna hlakkar til að spila fyrir fjölskyldu, vini og Íslendinga í Hörpu í ágúst. Hún er jafnframt kvíðin því allt verði að vera fullkomið.vísir/vilhelm
Lifir eðlilegu lífi á Íslandi

Nanna viðurkennir að fyrst hafi þetta verið þreytandi enda stóðu hljómsveitarmeðlimir sjálfir í því að setja upp sviðið og stilla upp fyrir tónleika. Þá var unnið frá morgni til kvölds. En nú er heilt fyrirtæki rekið í kringum hljómsveitina. Þau verða níu á sviðinu á tónleikunum en svo vinna um tíu manns í kringum bandið, hjálpa því á sviðið og sjá um allt utanumhald. Nanna segir að sér hefði ekki dottið í hug fyrir fimm árum þegar hljómsveitin var nýstofnuð og vann Músíktilraunir að hún myndi vera með fyrirtæki í kringum sig og sína tónlist 25 ára gömul. 

„Þetta er náttúrulega fáránlegt þegar maður setur þetta í samhengi. En nú erum við búin að vera á Íslandi síðustu tvö ár og þá lifir maður eðlilegra lífi. Það var svakalega gott að koma heim og hollt fyrir okkur. Að vera venjuleg bara. Ég held það sé ekki erfitt að missa jarðtengingu á túrum, þegar maður fer að halda að það sé eðlilegt líf. En það hjálpar að við erum hljómsveit, stór hópur sem vinnur saman, við erum engar stórstjörnur,“ segir Nanna yfirmáta hógvær. 

Nanna segir nýju plötuna vera mun persónulegri en þá fyrstu.vísir/vilhelm
Skype bjargar sambandinu 

En er einhver leið að eiga persónulegt líf þegar maður flakkar um heiminn á tónleikaferðalagi? Áttu til dæmis kærasta? 

„Já, já, það er alveg hægt. Og já, ég á kærasta,“ segir Nanna brosandi. „Við erum búin að vera saman í sjö ár. Það er alveg hægt og gengur bara mjög vel. Við í hljómsveitinni erum næstum öll í samböndum. Auðvitað er það erfitt þegar maður fer út í langt ferðalag og maður finnur þegar maður kemur heim hvað það er gott að vera á sama stað og sá sem maður er í sambandi við. En Skype bjargar manni og svo kemur hann af og til út til að hitta mig. Það er voða stuð og mjög spennandi. Svo er ágætt að hann sé ekki í tónlist, hann er í tölvunarfræði. Ég er í tónlist á hverjum degi og það getur heltekið mann. Svo það er gott að fá mótvægið.“ 

Fórum á trúnó yfir kaffibolla

Nanna segist hafa þroskast mikið á þessum fimm árum enda margt gerst í hennar lífi. Það sjáist líka á nýju plötunni. 

„Ég finn mikinn mun á plötunum. Fyrsta platan var rosalega mikið í mómentinu, við gerðum það sem okkur datt í hug og notuðum efni sem við höfðum sankað að okkur í gegnum tíðina. Það var svakaleg spenna í okkur, við vorum með risastór augu að skoða, leituðum út og platan fjallaði mikið um fjarlæga hluti. Nýja platan er meira inn á við og við erum að pæla í okkur sjálfum. Hún er í raun mun persónulegri, heildstæðari og líklega þroskaðri. Enda erum við búin að vera svo mikið saman síðustu ár og þekkjumst orðið svo vel. 

Þegar við fórum að semja textana settumst við Raggi niður og spjölluðum. Fengum okkur kaffi, fórum á trúnó og ýmislegt kom upp á yfirborðið. Þannig að ég lærði mjög mikið um sjálfa mig við gerð plötunnar. Það má segja að nýja platan sé sjálfsskoðun og fjalli um þessa stanslausu leit að sjálfinu. Maður er alltaf að reyna að vera fullkominn en það er enginn fullkominn. Ég er mjög hrifin af breyskleika og finnst í raun bara fallegt þegar gallarnir koma í ljós en maður þarf að sætta sig við þá. Þannig að þetta snýst mikið um að taka sjálfan sig í sátt. Og við erum sátt, bæði við okkur og plötuna.“ 

Nönnu fannst strákarnir gera miklu skemmtilegri hluti þegar hún var að alast upp þannig að hún varði frekar tíma sínum með þeim en stelpunum.vísir/vilhelm
Reynt að troða mér í kjól 

Þau eru fimm í hljómsveitinni og Nanna er eina stelpan. Hún segist oft vera spurð að því hvernig það sé að vera eina stelpan. Það finnst henni alltaf jafnskrýtin spurning. 

„Ég veit aldrei hvernig ég á að svara þessari spurningu því mér finnst þetta svo eðlilegt sjálfri. Þegar ég var að alast upp í Garðinum voru margir vinir mínir strákar. Ég var alltaf kölluð strákastelpa. Mamma var að reyna að setja mig í kjóla en mér fannst það ömurlegt. Alveg það ömurlegasta. Mig langaði bara að vera með strákunum enda fannst mér eins og þeir fengju að gera alla skemmtilegu hlutina. Þeir voru á hjólabrettum, að spila tölvuleiki og í hljómsveitum. Þeir voru að gera kúl hluti á meðan stelpurnar voru uppteknari af því að vera sætar og velta fyrir sér hverjum þær væru skotnar í. Þannig að já, ég var strákastelpa. En það er náttúrulega fáránlegt að vera kölluð strákastelpa fyrir að vera á hjólabretti og í hljómsveit. Af hverju eru þetta strákahlutir? Við verðum að breyta þessu,“ segir Nanna hlæjandi. 

Kröfur til tónlistarkvenna

„Það er vissulega ákveðin athygli sem fylgir því að vera eina stelpan í bandinu. Yfirleitt er það jákvæð athygli en stundum verður hún óþægileg. Það eru ákveðnar kröfur og væntingar til kvenna í tónlist. 

Til dæmis var ég einu sinni að tjá mig um að mér fyndist svo flott þegar konur eru krúnurakaðar og að mig langaði að prófa það. Fólk alveg tjúllaðist og sagði að ég mætti alls ekki gera það því það væri ekki sexí og ég ætti að vera með sítt hár. Þetta var svo yfirborðskennt en hafði lítil áhrif á mig. Aftur á móti er fínt að konur í tónlist fái jákvæða athygli því vonandi ýtir það við stelpum. Ég væri til í að sjá fleiri stelpur í tónlist, að semja og spila á hljóðfæri. Annars finn ég ekki fyrir erfiðri athygli hér heima. Mér finnst í raun eins og enginn viti hver ég er, ég finn að minnsta kosti ekkert fyrir því að einhver kannist við mig. Það er frekar notalegt. Svona erum við Íslendingar bara og það er gott. Það er öllum bara alveg sama.“

Nanna verður oft feimin en segir að stundum þurfi maður bara að keyra sig áfram.vísir/vilhelm
Verður oft feimin 

Þarf maður ekki að vera með gott sjálfstraust til að sitja svona vel í sjálfum sér og láta ekki þessar kröfur ná til sín? 

„Jú, jú. Maður þarf líka bara að keyra sig áfram þótt maður sé ekki með mikið sjálfstraust. Það er ekkert pláss fyrir annað. Tónlistarbransinn er ekki beint karlaheimur en konur eru stundum minna áberandi. Þá þarf maður bara að valta áfram.“ 

Og verður þú aldrei feimin?

„Jú, rosalega oft. Ég var til dæmis alveg feimin þegar við byrjuðum á þessu viðtali,“ segir Nanna brosandi. „Ég verð líka stundum feimin fyrstu mínúturnar uppi á sviði en svo hristist það af manni.“ 

Stressandi að spila heima

Hljómsveitin mun halda tónleika í Hörpu 19. ágúst og hófst miðasala í gær. Fylgir því meira stress að spila hér heima en erlendis?



„Já, algjörlega. Maður verður kvíðnari en líka spenntari. Allt verður að vera fullkomið. Ég er búin að vera að stelast til að leyfa fjölskyldunni að heyra lög af nýju plötunni og ég verð alltaf svo stressuð yfir viðbrögðunum. Ég stari alveg framan í þau og reyni að meta hvað þeim finnst út frá andlitssvipnum. Þegar við vorum að vinna plötuna var ég alveg pollróleg. Ég var ekkert að hugsa hvort fólk myndi fíla þetta því mér fannst mikilvægara að við værum að gera eitthvað sem við fílum sjálf. Það er svo auðvelt að láta hitt trufla mann, að maður fari að semja tónlist til að falla í kramið og með ákveðnar væntingar ákveðinna hópa í huga. En þá er maður að búa til eitthvað sem er ekki frá manns eigin brjósti. Þegar maður er að búa til plötu þarf það að vera barnið manns, maður verður að hlúa að því eins og manni hentar. En svo um leið og platan er komin út sleppir maður tökunum og þá verður barnið manns líka eign annarra. Núna erum við búin að klára plötuna og hún liggur bara tilbúin þar til á útgáfudegi í júní. Þessi bið er svolítið stressandi en við komum frá þessu sátt og okkur finnst við vera samkvæm sjálfum okkur.“

Nanna segist vera að upplifa miklu meira en sinn stærsta draum.vísir/vilhelm
Lifir drauminn 

Eitt lag af plötunni er komið út og hefur Siggi Sigurjóns slegið í gegn í myndbandi við lagið. Nanna segist vera gríðarlega ánægð með viðbrögðin sem lagið hefur fengið. Nú er næsta tónleikaferðalag orðið raunverulegra enda styttist í það. Hún segist hlakka mikið til að kynna nýja tónlist fyrir heiminum. Er hún að upplifa stóra drauminn sinn? 

„Já. Já, algjörlega. Þetta er snilld. Á undarlegan hátt var þetta alltaf það sem mig langaði til að gera. Mig langaði alltaf að gera tónlist. En ég ímyndaði mér aldrei að ég myndi gera þetta af þessari stærðargráðu. Já, ég er að upplifa drauminn og miklu meira en það. En svo er vonandi miklu meira eftir og það er margt sem mig langar að gera í framtíðinni. Ég er enn að finna hvar ég vil lenda og er alltaf að pæla. Jafnvel þótt ég sé búin að kynnast mér miklu betur síðastliðin ár, hver ég er og hver ég vil verða, þá hef ég samt ekki hugmynd um það ennþá.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×