Lífið

Hafnfirðingar breyta heimilum í tónleikahús

Guðrún Ansnes skrifar
Kristinn fór á sams konar hátíð í Færeyjum og sneri aftur hugfanginn af hugmyndinni um að koma svipuðu á koppinn í Hafnarfirði.
Kristinn fór á sams konar hátíð í Færeyjum og sneri aftur hugfanginn af hugmyndinni um að koma svipuðu á koppinn í Hafnarfirði. Vísir/Pjetur
„Við ætlum að hafa þetta kósý og kveðja þennan erfiða vetur almennilega“ segir Kristinn Sæmundsson, sem stendur fyrir einhverri huggulegustu tónlistarhátíð hér á landi.

Heima í Hafnarfirði er tónlistarveisla með öðruvísi sniði en þekkist hér á landi. „Allir tónleikarnir eru haldnir inni á heimilum fólks í Hafnarfirði og við gerum heimsóknum því hátt undir höfði,“ útskýrir Kristinn. Hátíðin er haldin síðasta vetrardag, þann 22. apríl næstkomandi og er vel til þess fallin að fagna sumrinu.



Hátíðin var haldin í fyrsta skipti í fyrra og hefur nú fest sig í sessi meðal bæjarbúa. Hugmyndin á rætur sínar að rekja til Færeyja og fékk Kristinn þá flugu í höfuðið að þetta væri eins og sniðið fyrir Hafnarfjörð og aftur varð ekki snúið.

„Tónleikarnir verða haldnir í þrettán heimahúsum og munu því þrettán hljómsveitir stíga á svið frá klukkan átta og lýkur fjörinu um ellefu. Þá geta gestir haldið áfram í miðbæ Hafnarfjarðar.“



Þeir tónlistarmenn sem boðað hafa komu sína eru til dæmis KK, Jóhanna Guðrún, Herbert Guðmundsson, Dimma, Jón Jónsson, Friðrik Dór, Hjörtur Howser og Langi Seli mun láta sjá sig ásamt Skuggunum. Hafnarfjörður verður undirlagður tónleikum, því utandagskrártónleikar verða úti um allan bæ.



„Svo verður boðið upp á fyrirbærið Opinn míkrafón, þar sem fólk getur skráð sig og troðið upp eins og því sýnist. Þessi liður gekk svo vel í fyrra að við ætlum að gera enn meira úr honum í ár,“ upplýsir Kristinn glaður í bragði.



Kristinn er enginn nýgræðingur í tónlistarsenunni en hann gengur gjarnan undir nafninu Kiddi Kanína. Hann átti Hljómalind á sínum tíma og hefur verið iðinn við að koma hljómsveitum á kortið, svo sem Sigur Rós. Hann er einnig maðurinn á bak við fjölda tónleika hérlendis og flutti meðal annars hingað til lands Prodigy, Shellac og Will Oldham. Hann tók sér þrettán ára pásu frá tónlistarsenunni en kemur nú tvíefldur til leiks.

„Miðasala gengur verulega vel og geri ég ráð fyrir að uppselt verði áður en langt um líður,“ segir Kristinn í lokin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×