Lífið

Sorgarferli eftir uppþot í leikhúsi

Elín Albertsdóttir skrifar
Lífið tók u-beygju. María Sigurðardóttir, fyrrverandi leikhússtjóri hjá Leikfélagi Akureyrar, hefur náð sér eftir mikið áfall sem varð þegar henni var sagt að yfirgefa leikhúsið vegna erfiðrar fjárhagsstöðu þess árið 2011.
Lífið tók u-beygju. María Sigurðardóttir, fyrrverandi leikhússtjóri hjá Leikfélagi Akureyrar, hefur náð sér eftir mikið áfall sem varð þegar henni var sagt að yfirgefa leikhúsið vegna erfiðrar fjárhagsstöðu þess árið 2011. Mynd/Stefán
Það hefur ýmislegt drifið á daga Maríu Sigurðardóttur, fyrrverandi leikhússtjóra Leikfélags Akureyrar, frá því hún hætti í leikhúsinu árið 2011. Hún gekk í gegnum erfitt sorgarferli í kjölfarið og flutti til Danmerkur.



María segir að þegar hún hætti sem leikhússtjóri á Akureyri hafi hún skrifað öllum leikhússtjórum í Danmörku til að sækja um vinnu. „Ég vildi komast í annað umhverfi og hitta nýtt fólk. Mig langaði að hvíla mig á leiklistarheiminum hér heima eftir leiðindin sem komu upp á Akureyri. Það var hins vegar ekki hlaupið að því að fá vinnu í Danmörku. Dönum fannst þeir hafa lent í svo svakalegri kreppu. Ég benti þeim á að við hefðum lent í miklu verra hruni. Þeir trúðu því reyndar ekki, gráir í framan af stressi,“ segir María og hlær. „Ég fann það síðan að mig langaði kannski alveg eins að prófa eitthvað annað. Ég fór því að þrífa heimili fólks og vann með fólki sem hreinsaði til eftir vatnstjón, bruna og þess háttar,“ segir María, sem bjó í Kaupmannahöfn í tæp þrjú ár.

Týnd í sjálfri sér

„Það gerði mér mjög gott að komast í burtu,“ segir hún. „Ég fann sjálfa mig aftur. Þegar maður hefur starfað lengi í kröfuhörðu og ábyrgðarmiklu umhverfi týnist maður einhvern veginn inni í sér. Ég hafði áður búið í Kaupmannahöfn og kann virkilega vel við mig þar. Tveir synir systur minnar búa í borginni með fjölskyldum sínum, þannig að ég gat verið í ömmuhlutverki með börnum þeirra. Óneitanlega saknaði ég þó minna eigin sona og barnabarna. Yngri sonur minn, Hjalti Rúnar Jónsson, er í leiklistarnámi og mig langaði til að fylgjast með honum í náminu. Eldri sonur minn, Eyvindur Karlsson, er leikstjóri og þýðandi. Hann á tvo syni sem eru fimm og sjö ára og ég saknaði þeirra mikið. Ég gæti hins vegar vel hugsað mér að fara aftur til Kaupmannahafnar einhvern tíma seinna. Mér líður óskaplega vel þar. Það er heldur ekkert sérstaklega eftirsóknarvert ástand hér heima.“

Vont mál

María viðurkennir að það hafi tekið mikið á hana þegar hún hætti sem leikhússtjóri. „Já, ég á eftir að koma fram og segja frá því hvernig þetta var í raun og veru. Ég hef ekki verið tilbúin til þess hingað til. Þetta var vont mál og illa komið fram við mann. Það eru ekki öll kurl komin til grafar í því máli. Mér finnst til dæmis leiðinlegt að heyra utan að mér að ástæða þess að ég hafi hætt hafi verið að sýningin Rocky Horror hafi farið langt út fyrir kostnaðaráætlun. Þess vegna hafi allt farið á hausinn. Það er rangt. Þetta var frábær sýning og hún á ekki skilið slíkt umtal. Listamennirnir í Rocky Horror komu hvergi nærri rekstri leikhússins. Það er ömurlegt að þeim sé kennt um hvernig fór. Þessi sýning var meiriháttar flott með fallegum búningum og yndislegri tónlist sem var gefin út á plötu. Þetta var fyrsta sýning Leikfélagsins sem sett var upp í Menningarhúsinu Hofi og mikill kostnaður samfara því. Samskipti Leikfélagsins og starfsmanna bæjarins í kringum uppbygginguna á Hofi er reyndar leiðinlegur kafli sem ég á eftir að segja frá í lengra viðtali.“

Löng saga

María segist hafa verið mikill töffari sem gekk í öll verk í leikhúsinu með miklum metnaði. Það var því mikið áfall þegar henni var skyndilega sagt að yfirgefa leikhúsið samdægurs. Þá var hún að leikstýra verki og því ekki lokið. „Ég hafði ekki gert neitt saknæmt þótt vissulega bæri ég ábyrgð á leikhúsinu. Það var framkvæmdastjórinn sem stóð sig ekki sem skyldi og enginn vissi fyrr en um seinan. Ég tók það mjög inn á mig, enda yfirstjórnandi leikhússins. Þessi slæma staða hafði farið fram hjá mér og það viðurkenndi ég strax. Það varð eins konar uppþot á þessum tímapunkti,“ segir María og bætir því við að löng saga sé í kringum allt þetta mál.

Leitaði hjálpar

„Þegar ég var búin að vera í Danmörku um tíma uppgötvaði ég sorgarferlið sem ég var að ganga í gegnum. Ég fann að ég varð að vinna úr því og leitaði til íslenskrar konu sem starfar sem þerapisti í Kaupmannahöfn til að hjálpa mér. Hún var frábær og ég fann gleðina aftur. Ég hugsa stundum núna að það hafi eiginlega bara verið gott að lenda í svona erfiðri lífsreynslu. Maður verður sterkari á eftir. Það var þó ekki skemmtilegt á meðan á því stóð og ég er ekki stolt af því sem gerðist á Akureyri. En ég setti ekki leikhúsið á hausinn, það ætla ég ekki að taka á mig.“

María lauk námi frá Leiklistarskóla Íslands árið 1983. Hún hefur starfað að fjölda íslenskra kvikmynda og sett upp og leikstýrt ótal leiksýningum um allt land. María hefur verið aðstoðarleikstjóri í þrettán íslenskum kvikmyndum, meðal annarra eru Tár úr steini, Bíódagar, Djöflaeyjan, Stikkfrí og Englar alheimsins. Hún leikstýrði dans- og söngvamyndinni Regínu.

Leikarar 50+

„Ég kom heim í nóvember og hef tekið að mér nokkur verkefni, þar á meðal leikstýrði ég Tenórnum með Guðmundi Ólafssyni sem nú er verið að sýna í Iðnó. Einnig hef ég verið að aðstoða ungan leiksstjóra, Guðmund Arnar, við að prófa börn í kvikmynd sem heitir Hjartasteinn. Ég er í atvinnuleit. Hef rætt við leikhússtjóra hér í Reykjavík og úti á landi til að láta vita af mér. Svo hef ég verið að lesa leikrit og skrifa. Þegar maður fer frá Íslandi gleymist maður. En ég er bjartsýn, hef langa reynslu úr leikhúsum og kann þetta starf.“

María segist ekki finna fyrir aldursfordómum. „Ég get samt alveg ímyndað mér að þeir séu þarna úti. Ég upplifi mig ekki gamla. Það er hins vegar skrítið hvað það eru fáir eldri leikarar að störfum í leikhúsunum. Guðmundur Ólafsson sem ég hef verið að vinna með er svo gríðarlega flottur í sýningunni sinni. Ég skil ekki af hverju hann er ekki á fullu í leikhúsunum. Ég er í hópi sem heitir Leikhúslistakonur 50+ en þær sýna einmitt spennandi verk um helgina sem ég ætla að sjá. Þetta eru flinkar konur sem fá ekki verkefni í leikhúsunum og búa þau þá bara til. Svo er barnakvikmyndavika um helgina sem ég ætla að kíkja á.

Fagnar vorinu

Um helgina ætla ég líka að kíkja á ömmustrákana mína. Ég geri það oft um helgar og finnst það skemmtilegt. Svo er gaman að setjast niður með sonunum og ræða leiklist. Þeir geta kennt mér eins og ég þeim,“ segir María. „Ég ætla út að hjóla og fagna vorinu. Ég bý í skemmtilegu landslagi í Mosfellsbæ þar sem eru margar skemmtilegar gönguleiðir,“ segir hún. Enginn kærasti? „Nei, enginn kærasti,“ svarar María og hlær. „Best að láta það berast,“ bætir hún við. María er því ekki bara á lausu á vinnumarkaðnum heldur einnig í ástamálunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×