Lífið

Ekkert gefið eftir í stílbrögðum og lagavali

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Stuðmenn halda tónleika í Eldborgarsal Hörpunnar þann 5. júní næstkomandi.
Stuðmenn halda tónleika í Eldborgarsal Hörpunnar þann 5. júní næstkomandi. Vísir/Valli
„Listræn vinna í undirbúningi þessa alls er í fullum gangi og verið að skipa í hlutverk,“ segir Jakob Frímann Magnússon um tónleika Stuðmanna í Eldborgarsal Hörpunnar undir yfirskriftinni Sumar á Sýrlandi.

„Þó Sumar á Sýrlandi sé þungamiðjan í þessu þá verður fjölþreifni í stílbrögðum og lagavali og ekkert gefið eftir. Það á að spegla ákveðið skeið í menningarsögu Íslands sem platan fangaði með sínum þrettán lögum og við bætum öðru eins við bæði úr eigin brunni og annarra,“ segir Jakob.

Sumar á Sýrlandi, fyrsta breiðskífa Stuðmanna, kom út árið 1975 og á henni eru klassísk lög á borð við Strax í dag og Í bláum skugga.

Litrík og skemmtileg mynd sem prýðir auglýsingu fyrir tónleikana vekur athygli en hún kemur úr smiðju Guðmundar Þórs Kárasonar í samstarfi við auglýsingastofuna Brandenburg.

Myndina segir Jakob margþætta og á mörkum hins raunverulega og óraunverulega, líkt og yrkisefnið bjóði upp á. „Það eru léttar skynvillur í þessari mynd þegar vel er að gáð. Kokteilarnir að fljóta upp úr lóðréttum glösum og menn, konur og dýr í herlegum gleðskap.“

Brandenburg gerði einnig auglýsingar fyrir Stuðmannatónleikana Tívolí. Sú herferð lukkaðist vel og uppskáru Stuðmenn og Brandenburg verðlaun FÍT og ÍMARK fyrir plakötin sem gerð voru fyrir tónleikana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×