Lífið

Ætlar ekki að snúa sér að endurminningum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Þórhildur Þorleifsdóttir, afmælisbarn dagsins, lítur svo á að hún sé kynslóð yngri en foreldrar hennar þegar þeir voru sjötugir.
Þórhildur Þorleifsdóttir, afmælisbarn dagsins, lítur svo á að hún sé kynslóð yngri en foreldrar hennar þegar þeir voru sjötugir. vísir/pjetur
Þórhildur Þorleifsdóttir er sjötug í dag. Hún segist vera langt frá því tilbúin að setjast í helgan stein enda hafi hún svo mikla þekkingu, kunnáttu og reynslu að gefa af sér.

„Ég er ekkert upptekin af hækkandi aldri enda er þetta líka óumflýjanlegt. Meðan aldurinn hefur ekki teljandi áhrif á mig hef ég ekki teljandi áhyggjur af honum,“ segir Þórhildur létt í bragði. „Ég ætla að halda upp á þetta seinna því ég vil að öll börnin mín séu á landinu. Það er eins og að smala köttum enda búa sum í útlöndum og starfa hér og þar.“

Þórhildur hefur rætt opinberlega að henni finnist starfskraftur kvenna yfir miðjum aldri ekki vera nýttur nægilega vel í samfélaginu.

„Ég er langt frá því tilbúin að setjast í helgan stein. Mér finnst ég hafa þekkingu, kunnáttu og reynslu sem væri synd að nýta ekki enda færir lífið manni svo mikla visku. Mig langar ekkert að pakka þessari reynslu niður í kistu og fara að snúa mér að endurminningum. Ég hef nóg að gefa og myndi segja að ég sé síkvik. Ég

hef ekki festst í einhverjum gömlum hugmyndum og endurnýjast sífellt. Svo ég hrósi sjálfri mér.“

Er kynslóð yngri en foreldrarnir

Þórhildur segir samfélagið taka of seint við sér enda sé fólk sem er sjötugt í dag ekki á sama aldri og sjötugt fólk fyrir þrjátíu til fimmtíu árum.

„Samfélagið er kynslóð á eftir að skilja og aðlaga sig breytingum, samanber þegar mesta bylting sögunnar átti sér stað og konur flykktust út á vinnumarkaðinn og í skólana. Það tók samfélagið áratugi að átta sig á breyttum hag kvenna og fjölskyldna. Meðalaldur fólks hækkar stöðugt vegna batnandi heilsufars og kynslóðin eftir stríð er fyrsta kynslóðin sem ólst upp við gott atlæti alla sína ævi, hvað varðar húsnæði, mat, menntun og heilbrigðisþjónustu. Ég lít því svo á að ég sé kynslóð yngri en foreldrar mínir þegar þeir voru á mínum aldri. Samfélagið verður að átta sig á þessu enda fullt af fólki um sjötugt í fullu fjöri og því óþarfi að setja það í geymslu.“

Hefur starfað í leikhúsi í 50 ár

Þórhildur segir þetta sérstaklega eiga við um konur enda fárist enginn jafn mikið yfir aldri karla og kvenna. Hún hafi þó ekki orðið harkalega vör við það að vera hent út af vinnumarkaði þar sem hún hefur unnið meira og minna í lausamennsku alla sína starfstíð og því urðu ekki formleg starfslok hjá henni við ákveðinn aldur.

„Ég hef verið starfandi í leikhúsi frá tólf ára aldri og sem atvinnumanneskja frá tvítugu. Þar sem ég hef verið í lausamennsku er ég orðin vön að gera ekki plön mörg ár fram í tímann. Yfirleitt dúkkar eitthvað upp. Ég hef því lært að lifa lífinu þannig að geta brugðist hratt við. Það geri ég ennþá enda enn full af orku.“

Þórhildur hefur alla tíð látið jafnréttisbaráttu kynjanna sig varða. Þrátt fyrir að margt hafi áunnist í baráttunni finnst henni eins og það sé enn of erfitt að vera ung kona á Íslandi í dag. Hún ól sjálf upp fimm börn meðfram fullu starfi í samfélagi sem ekki tók tillit til þess. Þótt margt hafi breyst til batnaðar á lögformlega sviðinu finnst Þórhildi hugarfarið ekki hafa breyst nóg.

„Eftir stendur það sem er erfiðast, sem er óbreytt menning feðraveldisins. Það er miklu erfiðara að breyta hugarfari en lögum og reglum. Ég held að hlutskipti kvenna og sérstaklega ungra kvenna sé að mörgu leyti erfitt í dag. Það eru gríðarlegar kröfur gerðar til þeirra. Fyrir utan fáránlegar útlitskröfur sem eiga sér rætur að hluta til í kynlífs- og klámvæðingunni þá þurfa konur að vera 100 prósent á öllum sviðum, í rúminu, í vinnunni, í útliti, í matargerð og öllum lífsstíl. Við konur þurfum bara sífellt að vera á vaktinni og vera með samfélagið í gjörgæslu ef við viljum sjá breytingar á þessu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×