Lífið

Kaupfélagsandi endurvakinn á Reykhólum

Guðrún Ansnes skrifar
Ása og Reynir eru ófeimin við að breyta um umhverfi og láta ævintýrin leiða sig áfram.  Róbertsson
Ása og Reynir eru ófeimin við að breyta um umhverfi og láta ævintýrin leiða sig áfram. Róbertsson Vísir/Reynir Þór Róbertsson
Hjónin Ása Fossdal og Reynir Þór Róbertsson hafa undið kvæði sínu í kross og munu á morgun opna matvöruverslunina Hólabúð á Reykhólum. Þau stóðu því í stórræðum við að taka upp vörur og gera klárt þegar blaðamaður sló á þráðinn vestur. Koma hjónin eins og kölluð, en Reykhólar hafa verið verslunarlausir síðan í byrjun árs. „Það eru að minnsta kosti hundrað og sex kílómetrar í næstu mjólkurfernu,“ segir Ása og skellir uppúr.

Tilviljanir ráða för



Lífið tekur óvæntar sveigjur og ræður röð tilviljana því að hjónakornin eru nú komin á sunnanvert vesturland. „Ekki alls fyrir löngu ætluðum við að flytja til Noregs og demba okkur í veitingarekstur. Við sögðum bæði upp störfunum okkar, en allt kom fyrir ekki og við enduðum atvinnulaus í Njarðvík,“ útskýrir Ása. Ekki leið á löngu uns tækifærin hreinlega bönkuðu á dyrnar hjá skötuhjúunum en Reynir hnaut um auglýsingu þar sem óskað var eftir fólki til að koma verslun aftur í stand á Reykhólum. „Boltinn var ekki lengi að rúlla af stað og áður en við vissum vorum við komin með húsnæði fyrir vestan.“



Kaupfélagsstemning allsráðandi


Fyrir tilstuðlan styrks frá Byggðarstofnunnar gátu þau hjólað í að koma Hólabúð á koppinn. „Hér verður allt mögulegt á boðstólnum, fyrir utan álnavöru kannski. Þetta er svona gamli kaupfélags stíllinn,“ segir Ása. Óhætt er að fullyrða að koma þeirra í bæinn hefur vakið stormandi lukku. „Við settum upp Fésbókarsíðu í síðustu viku og viðbrögðin við versluninni hafa ekki látið á sér standa. Hér er tvöhundruð og sjötíu manna samfélag sem bíður spennt,“ bætir Ása við. 



Þau eru býsna bjartsýn á framtíð bæjarfélagsins og segja þar mikinn uppgang, og vísar í þörungaverksmiðjuna á staðnum. „Við erum komin til að vera, það er alveg á hreinu. Á fimm ára markmiðalistanum okkar er svo að koma upp veitingastað hérna líka. Reykhólar eru greinilega að verða naflinn,“ segir Ása glöð í bragði og augljóslega full tilhlökkunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.