Skoðun

Hvar eru peningarnir Eygló?

Elín Oddný Sigurðardóttir skrifar
Meirihlutinn í Reykjavík samþykkti á haustmánuðum að veita Félagsbústöðum heimild til að fjölga félagslegum leiguíbúðum borgarinnar um 500 á næstu fimm árum. Í tillögunni er gert ráð fyrir að Reykjavíkurborg leggi fram 30% eigið fé í samræmi við hugmyndir þær sem félags- og húsnæðismálaráðherra hefur kynnt en hafa ekki enn þá verið lagðar fram á Alþingi. Borgarfulltrúar Framsóknar- og flugvallarvina, flokkssystur félags- og húsnæðismálaráðherra, studdu ekki í borgarstjórn að Reykjavíkurborg legðist í slíka uppbyggingu. Bentu þær á í bókun sinni að tillagan byggði ekki á núgildandi lögum um fjármögnum á félagslegu leiguhúsnæði.

Fyrirhuguð uppbygging félagslegra íbúða er nauðsynleg fyrir samfélagið og húsnæðismarkaðinn, þvælingur Framsóknarflokksins er óskiljanlegur og þolinmæði okkar er á þrotum. Ekki þýðir að bíða eftir mögulegri lagasetningu endalaust, tími aðgerða er núna, ástandið á húsnæðismarkaði þolir enga bið. Borgin hlýtur að eiga heimtingu á því að fá fjármögnun á félagslegum húsnæðislánum samkvæmt núgildandi lögum eins og borgarfulltrúar Framsóknar- og flugvallarvina bentu á í bókun sinni þegar tillagan var afgreidd í borgarstjórn síðastliðið haust. Samt koma Félagsbústaðir að lokuðum dyrum hjá Íbúðalánasjóði þar sem útlán hafa verið sett í frost meðan beðið er eftir tillögum félags- og húsnæðismálaráðherra um stofnstyrki til uppbyggingar félagslegs leiguhúsæðis.

Aðspurður hefur umræddur ráðherra miklar áhyggjur af ástandinu á húsnæðismarkaði og segir það „hlutverk sveitarfélaga að skaffa félagslegt húsnæði“. Nú spyr ég þig Eygló, hvar eru peningarnir? Reykjavíkurborg er tilbúin með sitt framlag og sína fjármögnun og nú stendur á ríkinu að uppfylla sitt hlutverk og standa við fjármögnunina. Hvort sem það er skv. núgildandi lögum eða fjarlægri framtíðarsýn skiptir ekki máli. Málið þolir enga bið, ástandið á leigumarkaðnum er með öllu óásættanegt og ríkið þarf að standa við sínar lagalegu skyldur um fjármögnun á félagslegu leiguhúsnæði núna strax.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×