Lífið

Enn að smíða, gera og græja

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Þetta hlýtur að lagast með vorinu og aldrinum,“ segir Jóhann um lungnabólguna sem hrjáir hann þessa dagana. Hér er hann með eigið málverk á bak við sig.
"Þetta hlýtur að lagast með vorinu og aldrinum,“ segir Jóhann um lungnabólguna sem hrjáir hann þessa dagana. Hér er hann með eigið málverk á bak við sig. Mynd/Auðunn Níelsson
„Þessa dagana er ég svolítið slappur af lungnabólgu. Fer samt niður í smíðastofu en get ekkert unnið af viti. Þetta hlýtur að lagast með vorinu og aldrinum,“ segir hinn 89 ára Jóhann Ingimarsson glettnislega.

Hann er einn helsti frumkvöðull íslensks húsgagnaiðnaðar, rak smíðafyrirtækið Valbjörk í áratugi og síðan verslunina Örkina. Eftir hann liggja líka mörg útilistaverk og málverk.

Þessi vatnsberi er einn nýlegra smíðisgripa Jóhanns í hillum smíðastofunnar á HlíðMynd/Auðunn
Jóhann hefur búið á öldrunarheimilinu Hlíð á Akureyri í tvö og hálft ár. „Ég kom fyrst í dagvistun og þá datt mér í hug að opna hér smíðastofu. Það var látið eftir mér og ég held hún hafi komið mörgum vel, ekki síst heimilinu í heild. Það er leitað til okkar með viðgerðir og hitt og annað smotterí,“ segir hann kankvís.

Hér er leikið með efnið, bæði tré og skinn.Mynd/Hönnunarsafn Íslands
 Smíðaði stóla Wegners

Jóhann er fæddur á Þórshöfn á Langanesi. „Við vorum ellefu systkinin, börn Oddnýjar Árnadóttur og Ingimars Baldvinssonar á Ingimarsstöðum,“ segir hann. Kveðst hafa farið í gagnfræðaskólann á Akureyri og iðnnám líka áður en hann hélt til Kaupmannahafnar að læra húsgagnahönnun og innanhússarkitektúr árið 1949.

Ekta borðstofustóll frá Valbjörk.Mynd/Hönnunarsafn Íslands
 „Þegar ég kom heim þremur árum síðar fékk ég ekkert að gera og var að hugsa um að fara út aftur því þar bauðst mér verkstjórastarf í húsgagnaverksmiðju. En sá þá auglýstar smíðavélar á Blönduósi hjá Ísberg sýslumanni, fór að skoða þær en leist ekki meira en svo á, sagði Ísberg þó að ég vildi kaupa þær en ætti enga peninga. Hann sagði að það væri í lagi, honum litist þannig á mig. Þannig startaði ég Valbjörk,“ rifjar Jóhann upp.

Svona birkistóla með kálfsskinni smíðaði Valbjörk fyrir skíðahótelið í Hlíðarfjalli. Þessi er í eigu Iðnaðarsafnsins á Akureyri.Mynd/Auðunn
„Fyrstu húsgögnin sem ég framleiddi voru borðstofuhúsgögn fyrir Iðnsýninguna 1952 í Reykjavík. Þau slógu í gegn og það bárust svo margar pantanir að ég tók tvo eigendur inn í fyrirtækið og þrjá lærlinga, þannig að reksturinn vatt fljótt upp á sig.“

Svefnsófi sem prýddi mörg heimili á tímabili. Þessi er í eigu Iðnaðarsafnsins á Akureyri.Mynd/Auðunn
Jóhann kveðst hafa teiknað öll húsgögn sjálfur sem framleidd voru í Valbjörk nema þau sem hann smíðaði fyrir Amtsbókasafnið á Akureyri fyrir Gunnlaug Halldórsson arkitekt.

Þeir teljast heppnir sem eiga svona stól í dag.Mynd/Auðunn
 Það voru stólar hannaðir af hinum þekkta, danska hönnuði Hans J. Wegner. „Gunnlaugur fékk leyfi hjá Wegner, þeir voru skólafélagar en Carl Hansen & Søn hafa framleitt allt eftir Wegner annars,“ upplýsir hann.

Svona mubla er og hvalreki fyrir ungar stúlkur sem vantar hirslu undir snyrtidót og föt og líka afbragðs skrifborð. Í eigu Iðnaðarsafnsins.Mynd/Auðunn
Húsgögnin aftur í tísku

Á skömmum tíma gerði Jóhann Valbjörk að stórfyrirtæki við Glerárgötuna, var líka með útibú á Ísafirði, Siglufirði, Reyðarfirði og í Vestmannaeyjum og seldi húsgögn í margar verslanir í Reykjavík. „Starfsmenn voru um 70 þegar mest var en oftast milli 50 og 60.“





Þennan koll sendi Jóhann út til Bandaríkjanna sem sýnishorn af framleiðslu sinni og fékk pöntun upp á 120.000 stykki, sem hann gat ekki sinnt. Húsgagnið er líka ekta partíborð því hægt er að snúa plötunni við og þar er hún slétt.Mynd/Hönnunarsafn Íslands
Stærsta verkefnið á ferlinum var húsgögn og innréttingar í Loftleiðahótelið við Reykjavíkurflugvöll. Svo smíðuðum við inn í fyrirtæki eins og Póst og síma, bankana og sjúkrahúsin, líka bari, stóla og borð inn í skemmtistaðina Röðul og Þórskaffi.“

Jóhann segir innréttingarnar úr Valbjörk eflaust flestar farnar á haugana en mörg húsgögn séu enn í einkaeign og fólk vilji ekki missa þau. „Skenkir og stólar eru orðnir dýrir ef þeir skipta um hendur því það merkilega er að þessi húsgögn eru aftur komin í tísku.“

Þar kom að Jóhann vildi hefja útflutning. „Ísland var orðið of lítið fyrir okkur. Við þurftum að hafa svo fjölbreytta framleiðslu sem var mjög dýrt,“ segir hann.

 „Ég var kominn með sambönd í Bandaríkjunum og búinn að senda sýnishorn út, til dæmis af kolli sem ég teiknaði og fékk pöntun á upp á 120.000 stykki. En ég fékk hvorki fyrirgreiðslu hjá bönkum né stjórnmálamönnum svo ég gafst upp og seldi Valbjörk árið 1970.

 Ég fékk greitt í húsgögnum svo ég stofnaði verslunina Örkina og flutti inn húsgögn frá Ítalíu og Þýskalandi. Ég þurfti aldrei að taka stór lán, Örkin gekk vel í höndum okkar hjóna og dóttir okkar rekur hana núna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×