Lífið

Best að fela sig í púðunum í IKEA

Adda Soffia Ingvarsdóttir skrifar
Megan Dunley og Ellen Rosdahl eru byrjaðar að leita að góðum felustöðum
Megan Dunley og Ellen Rosdahl eru byrjaðar að leita að góðum felustöðum Vísir/Valli
„Megan vinkona mín sá frétt um svona viðburð í Hollandi, þar sem mættu um 30.000 manns að fela sig í IKEA. Okkur fannst þetta svo góð hugmynd að við ákváðum að slá til,“ segir Ellen Rosdahl, skiptinemi frá Svíþjóð.

Hún, ásamt Megan Dunley vinkonu sinni, sem er skiptinemi frá Bandaríkjunum, ætla í feluleik í IKEA á laugardaginn.

„Vonandi verður þetta í lagi,“ segir hún og hlær. „Þetta er eingöngu til gamans gert og það eru engin verðlaun eða slíkt. Þú getur bara mætt með vinum þínum eða fundið þér einhvern til þess að leika við á staðnum,“ segir hún.

Þær vinkonurnar sömdu reglur fyrir feluleikinn sem þátttakendur verða að fara eftir. „Það má ekki brjóta neitt og það er alveg bannað að vera dónalegur við starfsfólkið,“ segir Ellen.

Hún segir IKEA vera hinn fullkomna stað til þess að fela sig á. „Það er samt líklega best að fela sig í púðunum eða á bak við gardínurnar. Svo er fullt af rúmum þarna og ætli það verði ekki einhver undir þeim öllum á laugardaginn,“ segir hún að lokum og hlær.

Til stendur að leikar hefjist klukkan eitt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×