Lífið

Fyndnar og skemmtilegar senur fæddar úr óhöppum

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Hér má sjá leikstjóra og leikara verksins Stofufangelsi, en að sögn Tryggva hefur vinnuferli sýningarinnar verið afar skemmtilegt.
Hér má sjá leikstjóra og leikara verksins Stofufangelsi, en að sögn Tryggva hefur vinnuferli sýningarinnar verið afar skemmtilegt. Vísir/Stefán
Leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð frumsýnir í kvöld í Undirheimum, svartri og gluggalausri kompu í skólanum, leiksýninguna Stofufangelsið.

„Það fjallar um manneskjurnar í kvikmyndunum og kvikmyndina í okkur, það er svolítið lykilsetningin sem við höfum verið að vinna með,“ segir Tryggvi Björnsson, einn af meðlimum leikfélagsstjórnar og leikari í verkinu.

„Þetta er verk sem er skapað af leikhópnum í samstarfi við leikstjóra og er sett saman yfir langt ferli og úr ólíkum senum sem koma saman til að mynda eina heild,“ segir Tryggvi.

Leikstjóri verksins er Halldór Halldórsson, sem er sjálfsagt betur þekktur sem Dóri DNA, og aðstoðarleikstjóri er Oddur Júlíusson.

Vinnuferlið hefur að sögn Tryggva verið hið skemmtilegasta en hópurinn var settur saman í janúar. „Það hafa fæðst ótrúlega fyndnar og skemmtilegar senur út frá óhöppum og misskilningi. Ef við sjáum eitthvað fæðast þá reynum við að grípa það á lofti og færa það inn í sýninguna,“ segir hann hress og segir ekki mikið stress í hópnum fyrir frumsýninguna í kvöld.

„Það er svo mikið afrek að fá loksins að frumsýna þegar maður er búinn að leggja svona mikla vinnu í að skapa, þá er frelsandi og verðlaunandi að fá loksins að sýna. Maður getur ekki verið stressaður fyrir því.“

Uppselt er á frumsýninguna en alls verður verkið sýnt átta sinnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×