Lífið

Apparat Organ Quartet fetar í fótspor vesturfara

Guðrún Ansnes skrifar
Menn munu spila músík og jafnvel grípa í eina bók á Kexinu í kvöld.
Menn munu spila músík og jafnvel grípa í eina bók á Kexinu í kvöld. Vísir/Andri Marino
Apparat Organ Quartet mun leggja leið sína út fyrir landsteinana og feta í fótspor vesturfara er bandið bregður sér til Kanada á næstu dögum. „Við eigum stóran aðdáendahóp í Kanada svo við erum að sinna kallinu ef svo má að orði komast,“ segir Hörður Bragason, einn fjórmenninga sem mynda hljómsveitina.

Hann segist ekki kunna skýringu á þessum vinsældum vestanhafs. „Ætli það sé ekki einhver tónn Apparatsins sem höfðar svona vel til kanadamanna. Við vorum reyndar frekar vinsælir í Belgíu fyrir skömmu, svo þarna er eitthvað,“ bætir hann við.

Mun bandið troða upp á NOW-hátíðinni á Íslendingaslóðum í Winnipeg og einnig koma þeir fram í Toronto. „Við ætlum að bjóða upp á gamalt efni með ferskum blæ en einnig verður á boðstólum nýtt efni,“ útskýrir Hörður og segir nýja plötu í farvatninu. Sú verður þriðja plata hljómsveitarinnar, en þeirra síðasta, Pólyfónía Remixes kom út árið 2012.

„Við höfum ekki verið að koma mikið fram upp á síðkastið, síðast í tróðum við upp í september í fyrra. Það verður því gaman að endurnýja kynnin við áhorfendur,“ segir Hörður glaðlegur.

Mun bandið prufukeyra nýja efnið á Kex klukkan 21.00 í kvöld. „Kexland býður fólki að kveðja okkur, en ókeypis verður inn og allir velkomnir,“ segir Hörður spenntur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×