Lífið

Er að verða hálfgerður vesalingur

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Maður er svo ungur og vitlaust þegar maður eignast börnin en það er voða gaman að vera afi,“ segir Torfi, ánægður með lífið.
„Maður er svo ungur og vitlaust þegar maður eignast börnin en það er voða gaman að vera afi,“ segir Torfi, ánægður með lífið. Mynd/Auðunn Níelsson
Er þetta kraftlyftingamaðurinn? spyr ég hikandi þegar karlmannsrödd svarar halló á hinum enda línunnar. „Nei, þetta er listamaðurinn. Kraftlistamaðurinn,“ er svarið.

Hér er ég komin í samband við Torfa Jóhann Ólafsson sem titlar sig listamann í símaskránni og gerði garðinn frægan sem kraftlyftingamaður um tíma.

Hann kveðst ánægður með að vera fimmtugur. „Það er svo gott að ná þessum áfanga, ég átti ekkert sérstaklega von á því. Þegar ég var tvítugur fannst mér þeir sem voru fimmtugir vera komnir á grafarbakkann.“

Hann kveðst hafa keppt síðast árið 2011. „Það var á móti sem heitir Sterkasti öldungur í heimi og var haldið í Belfast á Norður-Írlandi,“ upplýsir hann. „Svo lenti ég í vinnuslysi og hef verið dálítið frá síðan. Það vonandi lagast.“

Kraftarnir eru í genunum í ættum Torfa og hann kveðst ungur hafa farið að nota sína. „Ég er af bændum kominn og var sendur í sveit sem krakki. Svo var pabbi vegaverkstjóri á Barðaströnd og ég vann hjá honum tíu sumur, þannig að ég byrjaði snemma að vinna.“

Hversu stór?

„Ég er 1,98. En þegar ég var 18 ára náði ég mér í passa á lögreglustöðina í Reykjavík og var mældur 2,02. Ég hef þyngstur verið 196 kíló en er 160 í dag, maður er að verða hálfgerður vesalingur!“

Hann kveðst hafa starfað hjá Akureyrarbæ í 19 ár og vera að vinna á sambýli fyrir geðfatlaða sem heitir Þrastarlundur. „Áður var ég járnsmiður. Ég er góður í engu en ágætur í mörgu,“ segir hann hlæjandi.

Lífið snerist mikið um kraftlyftingarnar á tímabili hjá Torfa og hann kveðst hafa verið svo heppinn að fá að ferðast um heiminn í sambandi við þær.

„Ég er eiginlega búinn að fara í allar heimsálfur nema Suðurskautslandið og oft á staði sem fólk var ekki mikið að ferðast til á þeim tíma. Fór til dæmis í eftirminnilega keppnisferð til Suður-Indlands árið 1986, svo fór ég til Taílands, Kína, Ástralíu og Nýja-Sjálands.“

Torfi er fjölskyldumaður og meira að segja kominn á það stig að vera tvöfaldur afi. „Það er alveg stórkostlegt,“ segir hann. „Maður er svo ungur og vitlaus þegar maður eignast börnin en það er voða gaman að vera afi. Ég fékk einn afastrák fyrir tíu dögum. Lá á bæn um að hann kæmi á afmælinu en honum lá svolítið á!“

Hvað á svo að gera í tilefni dagsins?

„Heyrðu, konan er búin að skipuleggja einhverja óvissuferð. Ég bíð bara spenntur!“

Úr gamalli skýrslu um kraftlyftingar



  • 1985: Unglingalandsliðið fór fullskipað á HM unglinga í Þýskalandi. Magnús Ver Magnússon fékk bronsverðlaun í 110kg fl. með 657,5kg, Hjalti Árnason fékk silfur í 125kg flokki með 735kg og Torfi Ólafsson varð heimsmeistari í +125kg flokki með 807,5kg. Ísland varð í þriðja sæti í stigakeppni þjóða.
  • 1986: Í febrúar fór landslið Íslands til Kaliforníu til að etja kappi við landslið ríkisins. Torfi Ólafsson og Hjalti Árnason sigruðu í sínum flokkum. Torfi lyfti 912,5kg í samanlögðu.
  • Á heimsmeistaramót unglinga fór Torfi Ólafsson. Hann keppti í +125kg flokki og varð meistari með 790 kg.
  • 6. desember var sjónvarpsmót. Tveir Íslendingar lyftu yfir 900kg í samanlögðu, þeir Torfi Ólafsson 910kg og Hjalti Árnason 900kg. Að Jóni Páli meðtöldum eru þá þrír Íslendingar komnir í 900kg flokkinn.
  • 1988: Þrír keppendur fóru á HM og EM unglinga. Torfi varð í öðru sæti í +125kg flokki og setti heimsmet unglinga í réttstöðulyftu, 337,5kg.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×