Lífið

Fer inn í næsta áratug með hreint skrifborð

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Haraldur gefur út sína fyrstu sólóplötu á morgun.
Haraldur gefur út sína fyrstu sólóplötu á morgun. Vísir/Ernir
„Þetta er eitthvað sem er búið að safnast fyrir í trektinni í hausnum á mér og þurfti að fá að líta dagsins ljós,“ segir Haraldur Sveinbjörnsson sem gefur á morgun út sína fyrstu sólóplötu, Shine, undir listamannsnafninu Red Barnett.

Þetta er fyrsta sólóverkefni hans en hann er þó enginn nýgræðingur og hefur meðal annars unnið að útsetningum fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands, með Björgvini Halldórssyni, Skálmöld og leikur á bassa með hljómsveitinni Buff.

Plötuna hefur hann gengið með í tíu ár en þurft að fresta útgáfu hennar vegna annarra verkefna. Lögin voru farin að safnast saman og skapa ritstíflu.

„Ég er að verða fertugur á morgun og þetta var ákveðið takmark, nú væri aldeilis kominn tími á að losa um þessa stíflu og fara inn í næsta áratug með hreint skrifborð,“ segir hann og hlær.

Honum til halds og traust verða gamlir og góðir hljómsveitarfélagar, þeir Hannes Friðbjarnarson og Finnur Beck. „Hannes og Finnur eru með mér, þeir voru meðlimir í mínu fyrsta bandi sem við stofnuðum þegar við vorum ellefu ára gamlir. Okkur fannst þetta ákveðinn hringur að loka, að stíga saman á svið.“

Tónleikarnir fara fram í Fríkirkjunni og hefjast klukkan níu á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×