Lífið

Stelpur í þriðja sinn í æðstu embættum MR

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Þær Hanna og Snærós hlakka til að takast á við nýju embættin.
Þær Hanna og Snærós hlakka til að takast á við nýju embættin. Vísir/Vilhelm
Í ellefta sinn á 136 árum tekur stelpa við embætti Inspector Scholae í Menntaskólanum í Reykjavík og á sama tíma gegnir stelpa embætti forseta nemendafélagsins Framtíðar en þetta er í þriðja sinn sem stelpur gegna þessum embættum á sama tíma, jafnframt eru stelpur í meirihluta í stjórn nemendafélaga skólans.

„Þetta sýnir bara hvað MR er kominn langt í jafnréttisbaráttunni. Við erum núna í stjórn sex stelpur á móti fjórum strákum,“ segir Hanna María Geirdal, nýkjörinn Inspector Scholae, en það var í fyrsta sinn árið 1974 sem kona tók við embætti Inspector Scholae og var það Sigrún Pálsdóttir verkfræðingur.

Síðastliðinn föstudag tók Snærós Axelsdóttir við embætti forseta nemendafélagsins Framtíðarinnar en fyrst kvenna til þess að gegna embætti forseta félagsins var Ingibjörg Pálmadóttir kennari sem tók við embættinu árið 1949.

Hanna segir kosninguna sýna kynjahlutfallið í skólanum réttilega. „Stelpur eru í meirihluta í skólanum núna og til dæmis eru tveir heilir stelpubekkir á fyrsta ári,“ segir hún og bætir við að það sé gríðarlega mikilvægt að þær láti til sín taka í stjórn skólans.

Kosningabaráttan í ár var óvenju stutt vegna páskafrís og segir Hanna baráttuna hafa tekið aðeins á. „Ég og hinir frambjóðendurnir fórum í 29 kennslustofur á tveimur dögum. Það tók alveg á, en var mjög gaman,“ segir hún og hlær.

Hanna tekur formlega við embættinu í dag en hún og Snærós taka báðar við embættum af strákum, þeim Sigmari Aroni Ómarssyni og Árna Beinteini Árnasyni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×