Skoðun

Tollar: um­fangs­mesti matarskatturinn

Björn Brynjúlfur Björnsson skrifar

Virðisaukaskattur á matvæli var um áramótin hækkaður úr 7% í 11%. Sú breyting mætti andstöðu úr fjölmörgum áttum og voru um 500 fréttir sagðar af málinu. Forsætisráðherra hefur sagt þessa breytingu vera erfiðasta mál ríkisstjórnarinnar til þessa. Ljóst er að matvælaverð skiptir íslenskan almenning miklu máli.



Í því ljósi er áhugavert að skoða áhrif annarra matarskatta á matvælaverð. Þar má helst nefna að hér á landi hafa síðastliðin ár verði lagðir á háir innflutningstollar á matvæli. Tollar leggjast á um 40% vörutegunda í matarkörfu Íslendinga vegið eftir verðmæti. Þar vega þyngst tollar á mjólkurvörur og kjöt. Áætla má að innflutningstollar nemi í dag um 20% álagi á innflutningsverð osta, 41% á nautakjöt, 48% á svínakjöt, 92% á kjúkling, 107% á smjör og 156% á egg.



Áhrif tolla á matvælaverð leyna sér ekki. Matvæli sem ekki bera innflutningstolla eru ódýrari hér en í nágrannaríkjunum. Fiskur, ávextir, grænmeti og kornvörur njóta ekki tollverndar og er verð á þessum vörutegundum 7-15% lægra hérlendis. Hins vegar er verð á tollvernduðum matvælum yfirleitt hærra. Þannig er verð á smjöri, eggjum, ostum, nautakjöti, svínakjöti og kjúklingi á bilinu 19-59% hærra hér en í nágrannaríkjunum.



Reynslan sýnir að afnám tolla skilar sér í lægra vöruverði. Þegar tollar af agúrkum, tómötum og papriku voru afnumdir árið 2002 lækkaði verð til neytenda um allt að 45%. Varlega áætlað myndi afnám allra innflutningstolla lækka matvælaverð á Íslandi um 6%. Það jafngildir 76 þúsund króna lækkun matarútgjalda á hverja fjölskyldu á ári. Til samanburðar jók fyrrnefnd hækkun virðisaukaskatts á matvæli sömu útgjöld um 13 þúsund krónur á ári - einn sjötta þeirrar upphæðar.



Þeir sem vilja lægra matvöruverð hérlendis ættu að beita sér fyrir afnámi innflutningstolla, enda eru slíkir tollar umfangsmesti matarskatturinn. Það er því óskandi að innflutningstollar verði jafn umdeildir og hækkun virðisaukaskatts var þegar stjórnvöldum verður veitt aðhald á komandi misserum.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×