Erlent

Loftárásirnar skilja eftir sig gríðarlegt tjón

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Jemenskir sprengjuleitarmenn tóku strax í gær til við að safna saman sprengjum og sprengjubúnaði í höfuðborginni Sana.
Jemenskir sprengjuleitarmenn tóku strax í gær til við að safna saman sprengjum og sprengjubúnaði í höfuðborginni Sana. fréttablaðið/EPA
Fáeinum klukkustundum eftir að Sádi-Arabía lýsti því yfir í gærmorgun, að loftárásum á uppreisnarmenn í Jemen væri hætt, þá hófust loftárásir að nýju á hafnarborgina Aden.

Fréttaskýrendur telja þetta þýða að dregið verði úr árásum, þótt ekki verði þeim hætt.

Loftárásirnar hófust fyrir mánuði og hafa að sögn Rauða krossins valdið gríðarlegu tjóni og mannlegum harmleik í landinu.

„Það hliðartjón sem orðið hefur á lífi og eignum almennra borgara af völdum bæði loftárásanna og bardaga á jörðu niðri er algjörlega skelfilegt, sérstaklega í borgunum Sana, Aden, Taíz og Marib,“ hefur Reuters-fréttastofan eftir Robert Mardini, yfirmanni Alþjóðanefndar Rauða krossins í Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum.

Hann segir jafnframt að loftárásirnar hafi ekki skilað neinum þeim árangri, sem að var stefnt.

„Pólitísku vandamálin sem eru rótin að mörgum þeim átökum sem nú standa yfir í Jemen hafa ekki verið leyst. Ekki er neitt sjáanlegt sem bendir til þess að á næstu dögum muni draga úr átökum til frambúðar,“ segir hann. „Þetta á eftir að fara úr því að vera slæmt yfir í að versna enn frekar næstum því alls staðar í landinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×