Viðskipti innlent

Þörf á starfsfólki sem kann að forrita og hanna

jón hákon halldórsson skrifar
Jónatan Arnar Örlygsson.
Jónatan Arnar Örlygsson.
Tækniskólinn mun frá og með næsta hausti bjóða upp á tveggja ára nám í vefþróun með áherslu á viðmótsforritun. Það er nám á fjórða hæfnisþrepi, áframhald eftir stúdentspróf.

„Það er mikil þörf á mönnum sem kunna bæði að forrita og hanna. Við erum að gera öðruvísi en háskólarnir sem eru með tölvunarfræði og Listaháskólinn með hönnun. Við erum að reyna að fara milliveg og fara dýpra í viðmótsforritunina, hönnunarhlutann og djúpt í framendaforritun. Þetta er mikil og góð viðbót við það sem er í boði nú þegar,“ segir Jónatan Arnar Örlygsson, verkefnastjóri hjá Tækniskólanum.

„Þetta er meiri sérhæfing en tölvunarfræði og við erum ekki að fara eins djúpt í aðra forritun,“ bætir Jónatan við. Hann segir að námið sé búið að vera í undirbúningi í næstum tvö ár og hann hafi tekið við verkefninu um áramótin. „Það koma að þessu stórar vefstofur sem mótuðu námskrána því þær hafa þekkingu á hvað þarf inn í vefbransann. Það er alltaf að stækka og alltaf ný verkefni sem krefjast þessarar þekkingar,“ segir hann. Hann segir að námið sé samvinna atvinnulífsins og svo Tækniskólans.

Jónatan segir að nemendur verði ekki margir á hverju ári eða um það bil 20. „Sérstaða námsins er að þetta á ekki að vera stór hópur og við erum að reyna að hafa þetta þannig að fólki líði eins og það sé að mæta í vinnuna og að þetta séu raunveruleg verkefni. Þetta verður mikið í fyrirlestraformi og svo mikil verkefnavinna. Þetta snýst líka um að vinna í hópum og að geta unnið með fólki,“ segir Jónatan.

Námið er tveggja ára diplómanám og stefnt er að því að semja við skóla, meðal annars i Kaupmannahöfn, um að hægt verði að meta þetta nám upp í bachelor-gráðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×