Lífið

Draumadoktorinn okkar allra er allur

Adda Soffia Ingvarsdóttir skrifar
Derek og Meredith á góðri stundu.
Derek og Meredith á góðri stundu. Vísir/getty
Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum aðdáanda Grey's Anatomy-þáttanna að einn aðalkarakterinn lést í þáttunum í síðustu viku. Já, við erum að tala um Derek Shepard, eða Dr. McDreamy. Taugaskurðlæknirinn sem bræddi hjörtu um allan heim með bláu hvolpaaugunum og hrokkna hárinu.

Við kynntumst Shepard strax í fyrsta þættinum, sem myndarlega manninum sem Meredith hafði dregið með sér heim af barnum. Að sjálfsögðu var þetta ekki í síðasta sinn sem við sáum hann, þar sem svo heppilega vildi til að hann var læknir á sjúkrahúsinu með Meredith. Upp frá því varð hann uppáhaldslæknirinn okkar allra, draumadoktorinn.

Þetta augnaráð bræddi aðdáendahóp McDreamys.Vísir/getty
Í dag er fallegur dagur til að bjarga mannslífum

Persónan Derek Shepard átti fjórar systur, sem allar voru læknar, en systkinin voru alin upp af móður þeirra, Carolyn, eftir að faðir þeirra lést í vopnuðu ráni í verslun sinni. Eftir að útskrifast úr læknanámi, fór hann að vinna í New York ásamt þáverandi eiginkonu sinni, Addison Shepard.

Þaðan fór hann til Seattle Grace-sjúkrahússins þar sem hann vann með kærustu sinni og síðar eiginkonu, Meredith Grey. Shepard vann sig upp í að verða yfirlæknir sjúkrahússins, sem sameinast hafði Mercy West-sjúkrahúsinu. Fyrsta áfallið dundi yfir þegar syrgjandi ekkill skaut Shepard í brjóstið. Shepard var ekki fyrr búinn að jafna sig eftir árásina, líkamlega og andlega, þegar hann lenti í flugslysi ásamt vinnufélögum sínum og eiginkonu, þar sem tveir létust.

Shepard meiddist á hendi og gat lítið unnið mánuðum saman. Það var svo þriðja slysið sem tók okkar mann. Góðhjartaði læknirinn var nýbúinn að bjarga fólki úr slysi, þegar keyrt var inn í hliðina á bílnum hans með þeim afleiðingum að hann lést skömmu eftir slysið. 

Vilja fá hann aftur

Aðdáendur Grey's Anatomy eru langt frá því að vera sáttir við þá ákvörðun Shonda Rhimes, handritshöfundar þáttanna, að skrifa McDreamy úr þáttunum.

Gengu aðdáendur þáttanna svo langt að hefja undirskrifasöfnun fyrir því að fá lækninn aftur og hafa rúmlega 101 þúsund skrifað undir.

Fjölmargir tjáðu tilfinningar sínar vegna dauða McDreamys á Twitter og ætlaði stór hópur að hætta að horfa á þættina. Einhverjir beindu orðum sínum að Rhimes og spurðu hvers vegna hún gerði aðdáendum þáttanna þetta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×