Lífið

Öryggi sjúklinga í sjálfsvígshættu tryggt

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Hjúkrunarfræðingar á Bráðamóttöku Hulda Hrönn Björgúlfsdóttir, Kristín Rósa Ármannsdóttir og Hrönn Stefánsdóttir.
Hjúkrunarfræðingar á Bráðamóttöku Hulda Hrönn Björgúlfsdóttir, Kristín Rósa Ármannsdóttir og Hrönn Stefánsdóttir. Vísir/GVA
Hjúkrunarfræðingarnir Hulda Hrönn Björgúlfsdóttir, Kristín Rósa Ármannsdóttir og Hrönn Stefánsdóttir ásamt Önnu Maríu Þórðardóttur, sérfræðingi í hjúkrun, unnu nýtt verklag varðandi móttöku á fólki í sjálfsvígshugleiðingum eða eftir sjálfsvígstilraun. Verkferlið verður kynnt formlega í dag á hinni árlegu Viku hjúkrunar á Landspítalanum.

„Þessi sjúklingahópur, sem kemur inn eftir sjálfsvígstilraun eða með andlega vanlíðan, er mjög stór á Bráðamóttökunni. Bráðamóttaka geðdeildar er ekki opin á kvöldin og um helgar þannig að þessir sjúklingar þurfa að bíða á á deildinni okkar þar til geðlæknir getur metið þá. Það er því mikilvægt að móttakan sé góð og að fyrstu viðbrögð séu rétt,“ segir Hrönn Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur.

Nýtt verklag er nú í notkun og hefur að sögn Hrannar reynst vel. Hún segir að með nýju skipulögðu verklagi hafi einfaldlega orðið meiri vitund fyrir því hvernig ætti að nálgast einstaklinga í sjálfsvígshættu.

„Tilgangurinn er að bæta móttökuna og tryggja öryggi sjúklinga. Nýjar verklagsreglur leggja áherslu á að hjúkrunarfræðingur meti sjálfsvígshættu sjúklings í samtali með ákveðinn spurningalista til hliðsjónar. Ef einstaklingur er með virkar sjálfsvígshugsanir fer ákveðinn verkferill af stað með frekara eftirliti til að efla öryggi.“

Kynning á móttökunni er liður í Viku hjúkrunar sem fræðslunefnd hjúkrunarráðs stendur fyrir á hverju ári í maí – í kringum alþjóðadag hjúkrunarfræðinga sem var í gær, á afmælisdegi frumkvöðulsins Florence Nightingale.

Að þessu sinni er þemað umbætur í hjúkrun. Þá er vísað til verkefna og breytinga sem hafa verið gerðar til að viðhalda öryggi sjúklinga og bæta þjónustu. Í boði verða fjölmargir fyrirlestrar og vinnusmiðjur sem öllum er velkomið að taka þátt í.



Nýtt verklag á bráðamóttökunni verður kynnt kl. 11 við Hringdal á Landspítalanum við Hringbraut og kl. 13 á 2. hæð í Fossvogi. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×