Lífið

Rýnir í ræturnar okkar í glænýjum þáttum

Guðrún Ansnes skrifar
Kristján er yfir sig spenntur fyrir að leggjast í rannsóknarvinnu þáttanna, sem gætu orðið átta og jafnvel miklu fleiri.
Kristján er yfir sig spenntur fyrir að leggjast í rannsóknarvinnu þáttanna, sem gætu orðið átta og jafnvel miklu fleiri. Vísir/Stefán
„Hér er svo mörgum spurningum ósvarað. Erum við öll Norðmenn? Kannski Írar? Hvaðan erum við eiginlega?“ spyr Kristján Már Unnarsson uppveðraður, en hann hyggst búa til þætti um landnám Íslands og þær fjölmörgu ráðgátur sem því fylgja.

Mun hann leita á náðir sérfræðinga úr öllum áttum, svo sem sagnfræðinga, náttúrufræðinga, erfðafræðinga og fleiri. „Ég held að þetta sé eitthvað sem allir hafa áhuga á, við viljum jú öll vita hvaðan við komum og mér hefur sýnst fólk áhugasamt,“ segir Kristján. Hann segir áhugavert að velta fyrir sér hvernig standi á því að hingað hafi menn upphaflega komið og ef þeir hafi komið frá Noregi líkt og haldið er fram, hvers vegna þeir völdu Ísland.

„Svo má alltaf velta fyrir sér ýmsu, svo sem hvað gerði það að verkum að Íslendingar náðu ekki bólfestu í Ameríku þrátt fyrir að hafa verið þar býsna snemma,“ segir Kristján.

Kristján segir Íslendinga lukkunnar pamfíla þar sem forfeður okkar voru svo dæmalaust duglegir við að skjalfesta landnámið. „Við höfum verið hér síðan 870 og erum með þetta nánast allt saman skrifað niður, það er hreint út sagt ótrúlegt.“

„Ég stefni á að koma þessu í sýningu með haustinu, en lofa engu þar sem þetta er krefjandi verk og verður að vera almennilega gert, og svo verður þetta að vera sjónvarpsvænt líka,“ segir Kristján að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×