Lífið

Segist hafa fengið líflátshótanir

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Rouse titlar sig sem útlaga í gríninu, enda með sérstakan stíl.
Rouse titlar sig sem útlaga í gríninu, enda með sérstakan stíl.
„Ég hlakka mikið til að koma til Íslands,“ segir grínistinn Jason Rouse í samtali við Fréttablaðið en hann er væntanlegur hingað til lands í dag. Rouse verður með uppistand í Háskólabíói á morgun og mun kappinn dvelja hérna fram á sunnudag í góðu yfirlæti. Enda hlakkar hann mikið til að hitta landsmenn og skoða landið.

Rouse er þekktur fyrir að gera ýmsar tilraunir til þess að ganga fram af áhorfendum og hefur stíll hans í gríni vakið hörð viðbrögð, hvort sem þau eru jákvæð eða neikvæð. Þegar hann er spurður hvort hann finni fyrir þessum sterku skoðunum fólks á gríninu hans svarar hann um hæl: „Ég finn alveg fyrir líflátshótunum sem ég fæ, já. Margar konur hafa grátið eftir að hafa séð mig á sviði,“ bætir hann við. Hann segist hlakka til að koma fram fyrir íslenska aðdáendur. „Yfirleitt fer ég ekki með neinar væntingar til áhorfenda. Það eina sem ég bið um er að áhorfendur verði tilbúnir til þess að hlæja og hafa gaman. Ég bið þá sem ætla að koma á uppistandið að búast við hinu óvænta. Þetta verður fjör!“

Rouse hefur ferðast um allan heim og komið fram sem grínisti. Á vefsíðu sinni kallar hann sig útlaga í gríninu, því stíll hans samræmist oft ekki hefðbundnu uppistandi. „Ég hef farið víða. Komið fram í um tuttugu löndum. Það er gaman að hafa fengið að skoða heiminn svona.“ Rouse hefur verið á ferðalagi um Skandinavíu undanfarið og hefur áður komið við þar. Hann kom fram í Óperuhúsinu í Kaupmannahöfn fyrir fimm árum og má sjá það uppistand á YouTube. „Það er stærsti salurinn sem ég hef komið fram í,“ segir Rouse sem þótti gaman að skemmta Dönum og bætir við: „Minnsti og afskekktasti staðurinn er líklega Alta í Noregi.“

Næst á dagskrá hjá Rouse er að fara til Los Angeles, þar sem hann býr. „Síðan mun ég fara til Kanada og koma fram á hinni árlegu grínhátíð þar. Þetta verður í fjórða sinn sem hún er haldin og ég mun koma fram með ekki ómerkari mönnum en Tom Green, Jeremy Hotz og góðvini mínum Russell Peters.“

Rouse getur ekki beðið eftir því að koma til Íslands og líklegt þykir að hann muni kíkja út á lífið hér á landi. Þegar blaðamaður spyr hann út í hvaða klúbba hann vilji fara á notar hann enska orðið „club“. Rouse snýr þá út úr orðunum og fer að tala um að berja seli með kylfu (sem á ensku er kallað „seal clubbing“). „Það er langt síðan ég hef gert það. Má gera það á Íslandi?“

Rouse, sem er þekktur fyrir klámkjaft, lendir hér á landi í dag og heldur uppistand í Háskólabíói á morgun. Sýningin hefst klukkan 19 og er enn hægt að fá miða á vefsíðunni www.midi.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×