Lífið

Styrktartónleikar fyrir Nepal

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Meðal þeirra sem koma fram á tónleikunum í kvöld eru Salka Sól og Steinunn úr AmabAdamA og Gígja úr Ylju.
Meðal þeirra sem koma fram á tónleikunum í kvöld eru Salka Sól og Steinunn úr AmabAdamA og Gígja úr Ylju.
Í kvöld fara fram styrktartónleikar í Hörpu fyrir þolendur jarðskjálftanna í Nepal.

Fyrirtækið Alvogen greiðir allan kostnað vegna tónleikanna svo aðgangseyrir renni óskertur til hjálparstarfs UNICEF og Rauða krossins í Nepal.

Þeir tónlistarmenn sem koma munu fram eru Bubbi og Dimma, Retro Stefson, Amabadama og Ylja ásamt Sigríði Thorlacius en hún hleypur í skarð Bjarteyjar Sveinsdóttur annarar söngkonu Ylju.

„Bjartey verður vant við látin þannig við redduðum þessu bara svona,“ segir Gígja Skjaldardóttir úr Ylju glöð í bragði en þetta er í fyrsta skipti sem Sigríður kemur fram með Ylju.

Gígja segir æfingar fyrir tónleikana hafa gengið vel fyrir sig og þær Sigríður voru einmitt á leiðinni á lokaæfingu fyrir tónleikana. Gígja segir það jafnframt ljúft og skylt að koma fram á styrktartónleikum sem þessum enda enn mikið starf fyrir höndum í Nepal.

„Við erum ótrúlega ánægðar með það að geta látið til okkar taka þegar kemur að svona góðu málefni,“ segir hún og bætir við að búast megi við mikilli stemningu á tónleikunum.

Hægt er að kaupa miða inn á Harpa.is og miðaverð er 4.500 krónur og verður andvirði miðasölunnar skipta jafnt á milli samtakana.

Tónleikarnir verða í Silfurbergi í Hörpu og hefjast klukkan 21.00 í kvöld. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×