Lífið

Lögga framtíðarinnar tekur hæl- og tásporið í steppskóm

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Haraldur Elí á fína steppskó og æfir sig oft í þeim í herberginu sínu. fréttablaðið/ernir
Haraldur Elí á fína steppskó og æfir sig oft í þeim í herberginu sínu. fréttablaðið/ernir
Haraldur Elí Sigurðsson er fjögurra ára og er í leikskólanum Björtuhlíð. Eftir að hann sá sýninguna Billy Elliot fékk hann mikinn áhuga á dansi og hefur verið að æfa sig heima í stofu síðan.

Hvað finnst þér skemmtilegt að gera? Mér finnst skemmtilegt að fá gesti í heimsókn og leika við vini mína. Mér finnst líka gaman að hjóla og fara á róló. Mér finnst líka mjög gaman að fara í fótbolta í Hlíðaskóla á gervigrasinu með Ömma frænda.

Ert þú í einhverjum tómstundum? Já, ég er að æfa stepp í Borgarleikhúsinu. Svo var ég líka að æfa dans í Kramhúsinu.

Er það gaman? Já, og það er líka gaman að æfa sig heima í stofunni.

Hvað ertu búinn að læra? Hæl- og tásporið og shuffle. Líka að gera pirouette (snúa sér í hringi).

Ertu búinn að sjá Billy Elliot? Já, tvisvar.

Og hvað fannst þér flottast í sýningunni? Þegar Billy var að dansa ballett með stóra Billy og þegar Emil frændi minn var á sviðinu.

Hvað ætlar þú að verða þegar þú ert orðinn stór? Ég ætla að verða lögga og setja menn í fangelsi sem eru ekki góðir.

Hvað ætlar þú að gera í sumar? Ég ætla til Þýskalands og Danmerkur með mömmu og pabba. Ég ætla líka að æfa fótbolta með Real Madrid eða Val. Ég ætla líka að leika við Emil frænda minn, litlu systur hans og Dóru frænku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×