Lífið

Tyggjótattúin töfðu framleiðslu plötunnar

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Steinunn Eldflaug Harðardóttir, betur þekkt sem dj. flugvél og geimskip, í trylltu stuði með tattúin.
Steinunn Eldflaug Harðardóttir, betur þekkt sem dj. flugvél og geimskip, í trylltu stuði með tattúin.
„Ég ætla að spila og svo verð ég líka með annað óvænt atriði, það verður tryllt og kannski pínu eldfimt,“ segir tónlistarkonan Steinunn Harðardóttir, betur þekkt sem dj. flugvél og geimskip.

Í dag er formlegur útgáfudagur plötu hennar, Nótt á hafsbotni, sem er gefin út af Mengi og ætlar hún að vera með óvænta uppákomu klukkan 16.00 í Reykjavík Record Shop á Klapparstíg 35. Útgáfutónleikarnir verða síðan haldnir 12. ágúst. „Það stóð til að þeir yrðu núna 3. júní en tyggjótattúin töfðu framleiðsluna á plötunni svo þeim þurfti að fresta.“

Hverri plötu fylgja þrjú tryllt tyggjótattú. „Pabbi spurði mig um daginn, fylgja tattú öllum diskunum? og ég sagði já. Þá sagði hann, af hverju léstu ekki tattúin fylgja fyrstu hundrað eintökunum, þá hefði fólk keppst við að ná fyrstu eintökunum. Pabbi er klárari bisnessmaður en ég,“ segir Steinunn og hlær.

flott flúr
Nýja platan er talsvert dekkri en platan Glamúr í geimnum sem kom út árið 2013. „Ég er rosa ánægð með plötuna. Ég fór út í sveit að taka hana upp og það var svo mikill draugagangur þar, líka frost og ekkert símasamband. Þess vegna er hún frekar dökk og drungaleg.“

Steinunn er ekki alltaf hrifin af björtu nóttunum sem eru á Íslandi á sumrin. „Mér finnst óþægilegt þegar það er bjart alla nóttina, þessi plata er eins og athvarf í þessum björtu sumarnóttum. Þeir sem vilja leita í myrkrið af og til fíla þetta,“ bætir Steinunn við kát í bragði. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×