Lífið

Styrktu tólf heimili til að fagna afmæli

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Afmæli Hvítabandsins
Afmæli Hvítabandsins mynd/hvítabandið
„Það merkilega við Hvítabandið er að það er líknarfélag og við söfnum sjálfar með sjálfboðaliðavinnu til líknarmálanna,“ segir Helga Ólafsdóttir, ritari Hvítabandsins.

Hvítabandið er 120 ára í ár og hefur starfað óslitið allan þann tíma. Fyrir félagið starfa vaskar konur sem safna pening fyrir mannúðar- og líknarmál. Í dag starfa um fimmtíu konur fyrir félagið ásamt einum karlmanni.

Hvítabandið var stofnað 17. apríl 1895 og fagnaði afmæli sínu með því að halda stóran hátíðarfund þar sem veittur var styrkur til bágstaddra fjölskyldna að upphæð 1,2 milljón króna. Það gera þúsund krónur fyrir hvert starfsár Hvítabandsins.

Peningurinn rann til tólf barnafjölskyldna. Einnar fyrir hvern starfsáratug félagsins. Það má því segja að styrkveiting Hvítabandsins hafi tekið ríkulegt tillit til afmælisins.

„Það sem við gerðum á afmælinu var að styðja tólf heimili um hundrað þúsund krónur. Það átti að vera táknrænt,“ segir Helga.

Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, sem Hvítabandið er aðili að, var falið að koma gjöfunum áleiðis í hendur fjölskyldnanna.

Aðspurð um afmælisárið segir Helga það hafa verið eins og flest önnur ár.

Hvítabandið hefur í gegn um tíðina unnið að hinum ýmsu málum. Eitt stærsta verkefni sem samtökin hafa unnið að er bygging sjúkrahúss Hvítabandsins en það var vígt 18. febrúar 1934 og voru sjúkrarúmin 38 talsins.

Sjúkrahúsið var fyrst rekið sem sjálfseignarstofnun en síðar gaf Hvítabandið Reykjavíkurborg húsið ásamt innanstokksmunum.

Göngudeild geðdeildar frá Landspítalanum fyrir fólk með átröskun er rekin þar í dag.

Nú safnar félagið þó fé fyrir önnur verkefni.

„Mikið af því rennur til dæmis til Dyngjunnar, áfangaheimilis fyrir konur sem hafa lokið áfengismeðferð. Við styðjum Dyngjuna mjög vel en eins og þú getur ímyndað fær hún ekki mikið frá því opinbera,“ segir Helga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×