Erlent

Fjöldaútför fórnarlambanna í Suruc

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ekkasog heyrðist í bland við öskur mótmælenda við fjöldaútför fórnarlambanna í Suruc.
Ekkasog heyrðist í bland við öskur mótmælenda við fjöldaútför fórnarlambanna í Suruc. nordicphotos/afp
Fjöldaútför 25 þeirra 32 ungmenna sem féllu í sjálfsmorðsárás sem talin er á ábyrgð Íslamska ríkisins fór fram í tyrknesku borginni Gaziantep í gær. Árásin var gerð á tyrkneska bæinn Suruc sem stendur nærri landamærunum við Sýrland.

Líkkisturnar voru umvafðar rauðu klæði og voru þær grafnar ásamt nafni hvers fórnarlambs á hvítu blaði. Hundruð sóttu athöfnina og heyrðust bæði hróp gegn Íslamska ríkinu og ríkisstjórn forsetans, Recep Tayyip Erdogan. Andstæðingar hans telja aðgerðir forsetans gegn Íslamska ríkinu ekki nógu strangar.

„Við munum gera það sem nauðsynlegt er við þann sem ber ábyrgð á verknaðnum. Þetta var árás gegn Tyrklandi,“ sagði Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands, við menningarmiðstöðina sem ráðist var á. Davutoglu neitaði einnig ásökunum um að Tyrkir hafi ekki beitt sér af nógu mikilli hörku gegn Íslamska ríkinu.

Ungmennin sem létust stóðu fyrir umræðufundi um endurbyggingu bæjarins Kobane í Sýrlandi sem hefur orðið fyrir barðinu á árásum Íslamska ríkisins. Fundurinn var á vegum sambands ungra jafnaðarmanna í Tyrklandi. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×